Formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem formaður Samfylkingarinnar; Logi hefur staðfest að hann muni hætta í haust og segist kveðja formennskuna sáttur; en vill að á Landsfundi Samfylkingarinnar í haust verði valin öðruvísi manneskja en hann sjálfur er.
Logi segist vera þakklátur fyrir að sitt fólk hafi umborið jafn hvatvísan og fljótfæran mann og hann telur sjálfan sig vera; en Logi er sá formaður Samfylkingarinnar sem lengst hefur setið á formannstól flokksins í sögu hans; hefur verið formaður flokksins í ein sex ár.
Nýverið ritaði gamli Samfylkingarmaðurinn og ráðherrann, Össur Skarphéðinsson, pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hann hreint og beint krafðist þess að Logi myndi stíga til hliðar svo Kristrún Frostadóttir gæti tekið við stjórnartaumunum í Samfylkingunni.
Hvort skrif Össurs voru punkturinn yfir i-ið hjá Loga og hann hafi í kjölfar þeirra ákveðið að stíga niður úr formannstólinum er ómögulegt að fullyrða; en líklega hafa orð Össurar enn nokkuð mikið vægi hjá Samfylkingunni.
Hvort ósk Össurar rætist og Kristrún Frostadóttir verður næsti formaður Samfylkingarinnar skal ósagt látið; en margir telja hana helstu vonarstjörnu íslenskra jafnaðarmanna.
Kosið verður um nýjan formann Samfylkingarinnar á næsta landsfundi sem haldinn verður í október næstkomandi.
Áðurnefnd Kristrún sem og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa verið orðuð við framboð til formanns í haust.