Össur Skarphéðinsson virðist ekki ánægður með framgöngu þingmannanna þriggja sem skipa þingflokks hans gamla flokks, Samfylkingarinnar. Össur tjáði sig fyrir fáeinum mínútum.
„Í heilan vetur hefur ekki nokkur maður orðið var við stjórnarandstöðu í landinu. Þar tel ég frá þá stjórnarandstöðu sem Sigmundur Davíð heldur uppi innan Framsóknar við fornvin sinn, Sigurð Inga. Þar er mikið fjör.
En hefðbundna stjórnarandstöðu hefur einkum verið að finna innan stjórnarliðsins. Gott dæmi er Björt umhverfisráðherra, sem í einu helsta stórmáli vetrarins, mengun frá kísilveri á Suðurnesjum, tókst meistaralega að tala máli stjórnarinnar en vera um leið helsta stjórnarandstaðan í málinu.
Annað dæmi var hin fráleita tillaga um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna við núverandi aðstæður, sem var einkum drepin af Jóni Gunnarssyni, samgönguráðherra, og nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarandstaðan kom þar hvergi nærri, enda málið upprunnið þaðan í byrjun.
Þegar þingi var að slota, og stjórnarandstaðan týnd á fjöllum og af flestum talin af kom Sigríður A. Andersen henni til bjargar með því, að sögn, að rústa dómskerfinu. Það fólst í því að breyta lítillega tillögu „klúbbsins“ um hverjir væru næstir í goggunarröðinni.
Allt var þetta ágætis fólk, sumt óheppilega gift, en skiptir engu máli fyrir dómskerfið, eða velferð Íslands, hvort það er innan eða utan Landsréttar.
Þessi gerningur dómsmálaráðherrans vakti hins vegar stjórnarandstöðuna af þyrnirósarsvefni heils vetrar, gerði uppáhaldspíratann minn, Jón Þór, kolvitlausan í ræðustól, og gaf stjórnarandstöðunni tækifæri til þess að minna sjálfa sig og þjóðina á þá staðreynd að hún hefur hlutverki að gegna.
Það er skrítin staða þegar það er helst hinn langelsti í þingaldri, Þistilfjarðarauður, sem stundum ræskir sig í ræðustól með þeim hætti að menn muna eftir að það er þrátt fyrir allt stjórnarandstaða í landinu.
Frá sjónarhóli stjórnarandstöðunn er það því hafið yfir vafa að
fyrir þá dáð að vekja hana aftur til lífs er það Sigríður A. Andersen sem verðskuldar nafnbótina „starfsmaður dagsins“.“