- Advertisement -

Ósanngjarnt að Akureyringar kosti einir Sigurhæðir

Hilda Jana Gísladóttir skrifar: Sigurhæðir eitt fegursta hús Akureyra hefur verið töluvert til umræðu hjá okkur í stjórn Akureyrarstofu. Húsið lét þjóðskáldið og höfundur þjóðsöngsins Matthías Jochumsson reisa árið 1903. Það er friðað og er í eigu Akureyrarbæjar sem hefur haldið því vel við á þeim tíma sem það hefur verið í umsjón hans.
Á Akureyri eru einnig rekin skáldahús Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og Nonnahús Jóns Sveinssonar. Um margra ára skeið hefur Akureyrarbær bent á það óréttlæti að ríkið veiti rekstri skáldahúsanna á Akureyri engan fjárstuðning, ólíkt öðrum skáldahúsum t.d. Skriðuklaustri, Snorrastofu, Gljúfrasteini og Þórbergssetri. Þess má geta að Akureyrarbær á fleiri sögufræg hús að auki: Samkomuhúsið, Gamla spítala, Laxdalshús, Friðbjarnarhús og Hús Hákarla Jörundar og Ölduhús sem bæði eru í Hrísey.
Akureyrarstofa ákvað í samráði við Minjasafnið á Akureyri á sínum tíma að forgangsraða verkefnum skáldahúsum bæjarins og einbeita sér að því að skapa líf í Nonnahúsi og Davíðshúsi. Það tel ég að hafi gengið vel. Sigurhæðir hefur því ekki verið rekið sem skáldahús síðan haustið 2016 og húsið staðið autt frá miðju ári 2017 þegar núverandi endurbætur á því hófust.
Stjórn Akureyrarstofu hefur síðustu ár lagt ríka áherslu á að húsið sé í notkun en standi ekki áfram tómt. Ýmislegt hefur verið reynt en ekki gengið. Þar sem bæði var talið fullreynt að fá fjármagn frá ríkinu til að reka Sigurhæðir sem skáldahús auk þess sem ekki gekk að finna húsinu annað hlutverk þá taldi stjórn Akureyrarstofu rétt að kanna hvort húsinu væri betur borgið með því að selja það.
Húsið sjálft væri áfram friðað á sínum stað, en í eigu annarra gæti kviknað þar líf, enda dapurlegt ef húsið stæði tómt í mörg ár til viðbótar. Akureyrarbær hefur rætt við stofnanir ríkisins og ráðuneyti um að ríkið eignist húsið en hingað til hefur ekki fundist flötur á því.
Eftir mikla umræðu um Sigurhæðir undanfarna daga kom berlega í ljós að margir bera miklar taugar til hússins, til þjóðskáldsins, hússins og sögu þess. Akureyrarbær og stjórn Akureyrarstofu eru því ekki ein um það.
Í kjölfarið komu fram nýjar hugmyndir um notkun hússins, sem áður hafa ekki verið kannaðar og var málinu því slegið á frest og starfsmönnum Akureyrartofu falið að kanna hvort að þarna sé um að ræða raunhæfa kosti til að nýta húsið.
Hins vegar væri auðvitað besti kosturinn að Akureyrarbær fengi fjárveitingu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að reka skáldahúsin okkar hér á Akureyri. Það er ósanngjarnt að ætlast til þess að skattgreiðendur á Akureyri standi einir straum af þeim kostnaði að varðveita menningararf þjóðarinnar og halda á lofti minningu þjóðskáldanna. Það myndi engum detta í hug að skattgreiðendur í Mosfellsbæ ættu einir að reka Gljúfrastein til minningar um nóbelskáldið Halldór Laxness, hvers vegna á það sama ekki við hér á Akureyri?

Hilda Jana skrifaði greinina á eigin Facebooksíðu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: