Fréttir

Ósætti í borgarráði um framtíð Hlíðarenda

By Miðjan

June 13, 2014

Stjórnmál „Í samkomulagi Reykjavíkurborgar, innanríkisráðuneytisins og Icelandair var gerð þverpólitísk sátt á milli ríkis og borgar sem og hagsmunaaðila um að setja á laggirnar nefnd sem hefur það verkefni að finna framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar. Sú nefnd er enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu áður en pólitísk afskipti séu höfð af svæðinu þar sem flugvöllurinn er nú. Því er gagnrýnivert að formaður borgarráðs sem og aðrir fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn á því kjörtímabili sem er að ljúka virðast engu að síður leynt og ljóst vinna að þeirri stefnu að byggð muni rísa í Vatnsmýri og með því ýjað að því að niðurstaða nefndarinnar verði virt að vettugi. Til að virða þá tímabundnu þverpólitísku sátt varðandi nefndarvinnuna að framtíðarstaðsetningu flugvallararins, greiða borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn tillögunni, þar sem ekki er tímabært að skipuleggja svæði sem óvissa ríkir um að þessu leyti,“ þetta segir meðal annars í bókun Sjálfstæðismannaí borgrráði þegar rætt var um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri.

Bókanir gengu á víxl. Besti flokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grein sá sér leik á borði og bókuðu: „Deiliskipulag sem gerir ráð fyrir byggð við Hlíðarenda er þegar í gildi. Það var samþykkt í tíð Júlíusar Vífils Ingvarssonar, formanns skipulagsráðs. Fyrirliggandi tillaga er smávægileg breyting til bóta. Hlíðarendabyggð er utan verksviðs Rögnu-nefndarinnar, eins og ítrekað hefur komið fram.“

Þá bókuðu Sjálfstæðismenn: „Nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar hóf störf seint á síðasta ári. Í þeirri fjögurra manna nefnd situr meðal annarra formaður  borgarráðs, Dagur B. Eggertsson. Í nefndinni situr einnig Matthías Sveinbjörnsson sem sagði við kynningu deiliskipulags Valssvæðisins í viðtali í Morgunblaðinu 7. mars sl. eftirfarandi: „Við höfum rætt þetta innan nefndarinnar, þ.e.a.s. að það hafi staðið til að breyta deiliskipulagi og hefja framkvæmdir á Valssvæðinu. Það hefur komið fram að nefndin vilji fá svigrúm til að vinna, að það sé ekki verið að þrengja að flugvallarsvæðinu og ganga á mögulega kosti meðan sú vinna stendur yfir. Þessi áform eru ekki í anda þess. Þarna er enda verið að ganga inn á öryggissvæði sem gæti hugsanlega nýst í nýrri útfærslu vallarins.“