Bergljót Kristinsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, skrifaði:
Núverandi bæjarstjórn með meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og minnihluta Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Vina Kópavogs hefur nú unnið saman í rúmt ár. Mikil viðbrigði voru að fá inn meirihluta sem að mestu er skipaður fólki með litla þekkingu á opinberri stjórnsýslu og telur í lagi að beita sömu vinnubrögðum og tíðkast á almennum markaði enda kemur bæjarstýran úr helsta vígi hans Samtökum atvinnulífsins.
Óánægjan kraumar
Gengið hefur á með fjölmiðlafári trekk í trekk vegna óhönduglegra vinnubragða meirihlutans. Í stað þess að bæjarstýran hegði sér eins og framkvæmdastjóri sem lýtur vilja sinnar (bæjar)stjórnar telur hún sig eiga að og mega koma með fullmótaðar tillögur að breytingum sem lagðar eru fyrir bæjarráð í trúnaði, án þess að vinna við þær hafi áður verið samþykkt á þeim vettvangi. Trúnaðarmál sem lögð eru þannig fram er ekki hægt að ræða annars staðar. Hugmyndir hafa ekki verið lagðar fyrir þá hagaðila sem best þekkja til og þá aðila sem breytingar munu hafa áhrif á, heldur koma beint frá bæjarstýru eða aðkeyptum álitsgjöfum sem eru misgóðir. Þetta vinnulag er ávísun á óróa og óánægju ekki bara meðal starfsmanna heldur líka í bæjarstjórn.
Mál í vondum farvegi
Nú er svo komið að bæjarstjórn vinnur ekki saman sem ein heild eins og verið hefur síðustu ár. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 var ekki unnin í sátt þar sem meirihlutinn byrjaði á að vinna út frá loforðalistanum sínum án þess að gefa minnihlutanum hlutdeild. Það féll í grýttan svörð. Hér eru nokkur mál sem hefði mátt vinna betur þannig að allir hefðu getað gengið í takt:
Ungmennahúsið Molinn: Meirihlutinn lagði fram í bæjarráði tillögu að breytingu á rekstri Molans sem m.a. fól í sér uppsögn forstöðumanns. Málið var lagt fram sem trúnaðarmál. Stofna á til samvinnu við ýmis samtök s.s. Píetasamtökin, Samtökin 78, Bergið headspace og e.t.v. fleiri sem gerir ráð fyrir viðveru þeirra án greiðslu. Ekki var búið að hafa formlegt samráð við þessi samtök og enn er alls óvíst að þau samþykki að vinna kauplaust fyrir Kópavogsbæ. Málið var ekki lagt fyrir ungmennaráð fyrr en minnihlutinn krafðist þess. Forstöðumenn félagsmiðstöðva í Kópavogi fengu ekki að skila inn umsögn en þeir eru helstu samstarfsaðilar Molans og málið unnið í óþökk þeirra. Veruleg óánægja er meðal hagaðila.
Breytingar á menningarhúsunum: Aftur kom inn trúnaðarmál í bæjarráð þar sem kynntar voru tillögur bæjarstýru að niðurskurðartillögum sem byggðu á úttekt KPMG. Enn vantaði töluvert upp á að eðlilegri stjórnsýslu væri fylgt í meðferð málsins. Minnihlutinn gerði kröfu um að forstöðumenn húsanna fengju að skila inn umsögn um skýrsluna. Við lestur þeirra kom í ljós að hún var full af rangfærslum og vanþekkingu á starfsemi og rekstrarumhverfi menningarhúsa. Þrátt fyrir það lagði bæjarstýran fram sínar tillögur sem nú voru ekki lengur niðurskurðartillögur heldur úrbótatillögur og nýjungar í rekstri. Þær byggði hún á skýrslu KPMG þrátt fyrir fyrirliggjandi umsagnir sem allar voru neikvæðar.
Samræmd móttaka flóttafólks: Nú hillir loksins undir að tekin verði ákvörðun um hversu margt flóttafólk Kópavogur er tilbúinn að taka undir sinn verndarvæng með samræmdri móttöku. Liðið er rúmt ár síðan ég lagði fram kröfu um að gengið yrði til samninga við ríkið um málið og það hefur tekið allan þennan tíma að ákveða hversu marga við ætlum að styðja í því neyðarástandi sem ríkir. Á fundi velferðarrás s.l. mánudag bókaði ég ásamt fleirum í minnihluta þar sem við lýsum vonbrigðum okkar með að tillögur velferðarsviðs geri aðeins ráð fyrir móttöku á allt að 101 einstaklingi. Þar af eru margir þegar komnir sem falla þar undir. Á sama tíma hefur Hafnarfjörður samþykkt móttöku á 450 manns, Garðabær 180 manns og Reykjavík 1500 manns aðeins á síðasta ári. Nú verður áhugavert að sjá hvort meirihlutinn ætlar að staðfesta þennan fjölda sem yrði okkur til mikillar skammar.
Mengun í Kópavogslæknum: Eftir að nefndarkona Samfylkingarinnar hafði í þrígang beðið um að skýrsla Umhverfisstofnunar um mengun í Kópavogslæk yrði sett á dagskrá umhverfis- og samgöngunefndar gafst hún upp skrifaði grein um málið til þess að vara bæjarbúa við og vonandi að koma í veg fyrir að börn og dýr sem gjarnan vilja sulla í læknum yrðu mögulega fyrir eitrunaráhrifum. Þrátt fyrir að skýrslan lægi fyrir í hálft ár og bæjaryfirvöld væru upplýst í desember s.l. þá var ekkert aðhafst. Nú bíð ég þess að fá minnisblað á næsta fundi bæjarráðs um næstu skref. Það þurfti fjölmiðlafár til.