„Fjármálaráðherra fullyrðir að bætur til lífeyrisþega hafi hækkað um 1,1 milljón króna á ári frá árinu 2010. Það væri hækkun sem næmi hátt í 92 þúsundum á mánuði, á hvern mann í hverjum mánuði undanfarin átta ár. Erfitt er að koma þessum upplýsingum heim og saman við þann veruleika sem öryrkjar búa við.“
Á heimasíðu Öryrkjabandalagsins er birtur kafli úr þingræðu ráðherrans:
„Hvað þýðir þetta í auknum bótarétti fyrir hvern og einn bótaþega? Þetta þýðir að bæturnar hafa hækkað fyrir hvern og einn bótaþega um 1,1 milljón á ári. Hvers vegna stendur þá þessi hv. þingmaður hér og heldur því fullum fetum fram að þessi hópur hafi algerlega setið eftir? Tölurnar sýna allt annað.“
Öryrkjar fylgja orðum ráðherrans eftir: „Nú getum við öll tekið undir hversu gleðilegt það væri ef ráðherrann færi rétt með staðreyndir. Þá væri hver og einn örorkulífeyrisþegi með lauslega áætlað um 700 þúsund krónur á mánuði til grunnframfærslu. Það segir sig sjálft að margir yrðu ánægðir með að búa í þessari veröld fjármálaráðherrans.“