- Advertisement -

Öryrkjar beittir kúgun og ofbeldi

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar: Það hefur vakið mikla athygli, að ASÍ skyldi breyta um afstöðu gagnvart starfsgetumati öryrkja í stað læknisfræðilegs örorkumats. ASÍ samþykkti á nýafstöðnu þingi sínu að láta af stuðningi við starfsgetumat og krafðist þess að krónu móti krónu skerðing öryrkja yrði afnumin strax. Áður hefur ÖBÍ ályktað gegn starfsgetumati. Ekki verður séð, að unnt sé að taka upp starfsgetumat þegar svo er komið.

Rósa María Hjörvar, formaður BÍ um kjaramál, skrifaði athyglisverða grein um þessi mál fyrir skömmu. Þar segir m.a:

„Ekki bara er þessi framkvæmd óréttlát, hún er beinlínis ólögleg. Krónu á móti krónu skerðing var afnumin hjá eldri borgurum í janúar 2017 og þá voru öryrkjar skildir eftir vegna þess að stjórnvöld töldu forsvarsmenn öryrkja vera of tregir í taumi hvað varðar starfsgetumat. Þáverandi ráðherra sagði beinlínis að öryrkjar fengu ekki þessa leiðréttingu vegna andstöðu ÖBÍ við starfsgetumat. Þannig geta stjórnvöld í lýðræðisríkjum ekki hagað sér, það er einfaldlega ólöglegt að gera upp á milli sambærilegra hópa vegna „samstarfsörðugleika“ og slíka einræðistilburði á að fordæma – ekki apa eftir eins og núverandi ríkisstjórn virðist vera á góðri leið með að gera.

Það er skýr stefna núverandi ríkisstjórnar að halda aftur af öllum kjarabótum til örorkulífeyrisþega þar til tekist hefur að troða svokölluðu stafgetumati í gegn. Ráðherrar og þingmenn segjast vera allir af vilja gerðir – að þeir vilji endilega bæta kjör okkar – en að engu sé hægt að lofa eða ráðstafa fyrr en starfgetumat hafi verið komið í gegnum þingið.

Reynt að flækja málin. Stjórnarþingmenn tala mikið um „flækjustigið“, að það þurfi „að leggjast yfir þetta“ og það krefjist „heildarendurskoðunar.“

Þetta er allt fyrirsláttur, sett fram til þess að slá ryki í augu öryrkja. Það er ekkert flóknara að afnema krónu móti krónu skerðingu hjá öryrkjum en eldri borgurum. Þessi skerðing var afnumin með einu pennastriki hjá öldruðum og það má afnema hana með einu pennastriki hjá öryrkjum. Ég tek undir með Rósu Maríu. Ég reikna með að þessi vinnubrögð fyrrverandi stjórnar og núverandi séu ólögleg. Vinnubrögðin eru að mínu mati ólögleg og auk þess er þetta kúgun og ofbeldi sem ekki hefur sést áður í íslenskri stjórnsýslu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: