- Advertisement -

Öryrkjabandalagið fagnar hugmyndum Brynjars Níelssonar um rannsókn

Rannsókn Brynjars mun þannig staðfesta að um helmingur þeirra sem koma nýir inn á örorku, eru konur komnar yfir fimmtugt, slitnar á sál og líkama.

Öryrkjabandalagið fagnar hugmyndum Brynjars Níelssonar um rannsókn.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í spjalli við Sölva Tryggvason á Vísi, að það verði að rannsaka bótasvik í almannatryggingakerfinu og að samfélagið standi ekki undir veldisvexti í fjölgun öryrkja.

Öryrkjabandalagið tekur heilshugar undir með Brynjari um að skoða nú í kjölinn aðbúnað öryrkja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Rannsókn Brynjars mun þannig staðfesta að um helmingur þeirra sem koma nýir inn á örorku, eru konur komnar yfir fimmtugt, slitnar á sál og líkama.

Rannsókn Brynjars mun líka leiða í ljós að hlutfall öryrkja sem stundar svarta atvinnu, er svipað, eða aðeins lægra, en hlutfall annara Íslendinga sem vinna svart. Rannsóknarnefnd Brynjars getur kíkt í skýrslu sem geymd er í skrifborðsskúffu fjármálaráðherra, sem sýnir að samfélag okkar verði af 87 til ríflega 200 milljörðum á ári vegna skattsvika. Rannsókn Brynjars mun staðfesta að öryrkjar eru þar ekki ráðandi afl.

Rannsóknin mun líka leiða í ljós að Brynjar misskilur hugtakið veldisvöxtur, sem er þó okkur Íslendingum mjög ofarlega í huga þessi misserin. Ef öryrkjum fjölgaði í veldisvexti væri öll þjóðin orðin öryrkjar innan skamms tíma, Brynjar þar meðtalinn. Staðreyndin, sem rannsókn Brynjars mun staðfesta, er að hægt hefur á fjölgun á örorku, og reyndar hefur fækkað í hópi öryrkja síðustu ár.

Þá mun rannsókn Brynjars leiða í ljós að þær háu girðingar sem hann og samstarfsfólk hans hefur reist um atvinnuþátttöku öryrkja, hefur komið málum þannig fyrir að fæstir sjá sér hag í að reyna fyrir sér á vinnumarkaðnum, sökum þess að fyrir hverjar 100 þúsund krónur sem viðkomandi aflar sér, sitja um 12 þúsund eftir í vasa, þegar skattar og skerðingar hafa tekið sitt.

En rannsókn Brynjars mun líka staðfesta að um þriðjungur öryrkja eru, þrátt fyrir þessar miklu skerðingar, á vinnumarkaði, og þar af rétt tæplega 40% í fullu starfi.

Það er ánægjuefni ef ráðist verður í slíka rannsókn, því hún mun leiða Brynjari og samflokksmönnum hans fyrir sjónir, að frelsi einstaklingsins til athafna, hefur hingað til ekki náð til öryrkja. Hvort Brynjar, í ljósi ástar sinnar á frelsi einstaklingsins, verði ánægður með það eftirlitsþjóðfélag sem hann í raun talar fyrir skal ósagt látið, en rifjum samt upp umsögn Persónuverndar við síðustu stóru breytingu á lögum um almannatryggingar, þar sem eftirlitsheimildir TR voru auknar: „Getur slík þróun falið í sér alvarlega ógn við grunnréttinn til

friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og í raun gert það að verkum að mikilvægar reglur um þagnarskyldu stjórnvalda og annarra aðila, sem og trúnað við skjólstæðinga, verði marklausar.“

Brynjar vill rannsaka fleira. Hann telur ótækt að hver skattgreiðandi þurfi að halda uppi einum öryrkja og einum öldruðum. Honum til hughreystingar mun rannsókn hans leiða í ljós að fjöldi öryrkja hefur staðið í stað undanfarin ár, og að á komandi árum munu lífeyrissjóðir okkar standa undir æ stærri hlut eftirlauna landsmanna. Hlutur ríkisins í eftirlaunum getur því ekki annað en minnkað.

Það þarf samt enga rannsókn til að sjá hve miklir fordómar og andúð eru enn ríkjandi í samfélagi okkar í garð fatlaðs fólks, og ótrúleg tilviljun að það skuli staðfestast með þessum hætti á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks.



Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: