Ólafur Þórarinsson skrifaði: (Labbi í Mánum).
Þótt ytra byrðið láti ásjá í áranna rás heldur reynslan áfram að móta og þroska hugann svo maður verður enn andsnúnari þeim kapítalísku og fjandsamlegu stjórnarháttum sem hér ráða för. Allt samfélagið er orðið gegnsýrt af þessari dýrslegu grimmd þar sem sá sterki og samviskulausi má hrifsa af og traðka á lítilmagnanum og gera hann að kúguðum þræli sínum.
Upp úr 1980 stefndi ég eins og fjöldi annara á heilmikla uppbyggingu í búrekstri en þá var framið þjóðarmorð á lántakendum þar sem verðtryggingunni var skellt á til að fjárglæframenn og braskaralýður misstu aldrei spón úr aski sínum en græddu þess í stað á óförum annara. Þannig gátu þeir með lævísum hætti hremmt eignir okkar en stór hluti þjóðarinnar þurfti eins og ég að horfa á eftir öllum sínum eigum og lífsstarfi í gin þessa skrímslis.
Öllu því sem venjulegt fólk byggir líf sitt á hefur græðgi þessara aðila rústað og er þá sama hvert litið er. Alvarlegast er að þetta eru nánast allir þættir í umönnun barna, almennar læknisaðgerðir, leikskólar, geðrænir kvillar eða einelti allstaðar er fjársvelti og því engu sinnt sem skyldi. Þetta úthugsaða fjársvelti orsakar margra mánaða-jafnvel ára bið og allt heilvita fólk sér þær hræðilegar afleiðingar sem það hefur fyrir börn sem kljást við slíkt. Það fé sem átti að fara í uppbyggingu þessara þátta er stolið og komið fyrir í skattaskjólum og svikamyllum (vafningum) gammanna.
Því er ekki beysin framtíðarsýn afkvæma okkar sem ekki vilja taka þátt í illvirkinu því ef þau ætla til dæmis að eignast húskofa þurfa þau að borga hann minnst þrisvar en tveir fara í að halda afætunum í vellystingum, svonalagað þekkist hvergi annars staðar á byggðu bóli. Framtíðarsýn þeirra er því að streða myrkranna á milli og bera þó ekkert úr býtum nema útkeyrða sál og líkama.
Ekki er það skárra hjá okkur ellibelgjunum þar sem skjót viðbrögð gætu gjörbreytt lífsgæðum okkar auk þess að spara stórfé í umönnun. Þau 7 ár sem ég hef glímt við illvíga sjúkdóma hafa verið endalaus bið eftir læknis aðstoð og aðgerðum svo loksins þegar kemur að manni eftir kannski tveggja ára bið hefur meinið margfaldast og skapað önnur sem kallar á enn frekari meðhöndlun og bið. Til dæmis hef ég núna beðið í hálft ár eftir smá hjartaaðgerð.
Þó ég hafi áður talað um þessi samfélagsmein og þó að mínar persónulegu hremmingar séu léttvægar miða við marga aðra hafa afleiðingar þessa helsjúku stjórnkerfis aldrei verið mér sárari en nú. Sonur minn kona hans og börn sem ég hef haft daglegt samneyti við frá fæðingu þeirra, hafa gefist upp og ætla að flytja burt af þessu ómannúðlega og hnignandi skeri.
Við þessa bitru reynslu nú hef ég uppgötvað að tárakirtlarnir sem ég hélt að væru löngu uppþornaðir eru það hreint ekki.