Örlagavaldur eigin ríkisstjórnar
Leiðari Alþingiskosningarnar í lok október verða ekki vegna þess að breyta þurfi lögum um uppreist æru. Nei, þær verða vegna Bjarna Benediktssonar. Bjarni gekk lengra en einn af þremur stjórnarflokkunum gat sæst á. Því fór sem fór.
Það er rangt að láta sem kosð verði til þings í haust vegna laga um uppreist æru. Reynt er að gera meira úr breytingum á lögum um uppreist æru en efni eru til. Engar deilur eru uppi um breytingar á þeim.
Flest okkar líta stjórnarslitin allt öðrum augum. Slegið var leyndarhjúp um þá staðreynd að faðir Bjarna gerðist sjálfviljugur ábekingur dæmds barnaníðings. Það er ekki heldur vegna velvilja Benedikts Sveinssonar í garð níðingsins sem kosið er nú. Það er sjálfstætt mál.
Það er kosið vegna augljóslegra tilrauna Bjarna , Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra og Brynjars Níelssonar formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, til að halda frá öllu og öllum vitneskju um vilja Benedikts Sveinssonar, sem kosið verður til Alþingis í október. Það er þess vegna sem verður kosið til þings. Að halda öðru fram er ómögulegur útúrsnúningur.
Hvernig sem á er litið er málið mál Sjálfstæðisflokksins. Hann á þetta mál. Þar á bæ má vel vera að menn hafi kok til að kyngja einu og öðru. Björt framtíð hefur sýnlega ekki þannig kok og kaus að hætta samstarfi við flokk sem hagar sér einsog Sjálfstæðisflokkurinn gerir, og hefur gert.
Sökin er ekki þess sem er misboðið. Hún er þess sem misbauð.
Sigurjón M. Egilsson.