Án þessa er næsta víst að fjárfestar og féflettar ná að „hesthúsa“ mikinn gróða á kostnað almennings.
Ragnar Önundarson skrifar:
Um leið og rafmagn tæki að streyma úr landi um sæstreng yrði evrópskt markaðsverð grunnverð alls rafmagns í landinu. Heildsöluverð sem smásöluálagningin leggst ofan á. Okkur hefur hins vegar verið lofað því, aftur og aftur, að þegar stóriðjan hefur greitt skuldir Landsvirkjunar munum við njóta þess. Það er næstum eingöngu orkan sem er ódýrari hér á landi, allt annað er miklu dýrara vegna flutningskostnaðar og smæðar markaðarins (td. fákeppni). Ef það færi saman að LV yrði einkavædd og strengur lagður mundu nýir eigendur hennar hirða ávinninginn af niðurgreiddum virkjunum „fyrir framan nefið á okkur“. Ég segi NEI. Að auki finnst mér ástæðulaust að flytja atvinnu út og atvinnuleysi inn. Það væri heimskulegt.
Ég hef lagt til að raforkuframleiðslu fyrir innlendan markað (annan en stóriðju) verði komið í félag í sameign notenda. Slíkur „sjálfsþurftarbúskapur“ samræmist samkeppnisreglum EES / ESB. Án þessa er næsta víst að fjárfestar og féflettar ná að „hesthúsa“ mikinn gróða á kostnað almennings einhvern tíma í framtíðinni.