„Óréttlætið er svo mikið að þetta verður að leiðrétta“
„Ég kem hingað upp til að tjá mig um hversu mikilvægt það er að við, sláum þá afsökun í burtu að það sé ekki heimild til að fella niður námslán,“ sagði Halldóra Mogensen Pírati á Allþingi.
„Við vitum að eftir hrun hækkuðu námslán margra alveg gríðarlega mikið í verðbólgunni og þetta er fólk sem hefur í langan tíma verið að sligast undir álaginu og þeim bagga sem þessi gríðarlega háu námslán eru. Margir hrökkluðust líka úr námi út af þessu, sem er mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Það er ekki samfélaginu til bóta að fólk hrökklist úr námi vegna of hárra námslána. Nú erum við aftur að lenda í efnahagsástandi þar sem verðbólga er að hækka og það hefur áhrif á námslán og jafnvel námslán þeirra sem urðu fyrir gríðarlegum áhrifum af hruninu,“ sagi Halldóra.
„Óréttlætið er svo mikið, forseti, að þetta verður að leiðrétta. En þetta snýst ekki bara um óréttlæti, þetta er líka efnahagsmál því að það er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir samfélagið allt að fólk sé bugast undan álagi. Þetta hefur áhrif á getu fólks til að taka þátt í samfélaginu, þetta hefur áhrif á frelsi fólks til þess að vinna við það sem það brennur fyrir. Það hversu mikil námslán fólk er með á bakinu þegar það kemur úr náminu hefur áhrif á ákvarðanatöku þess þegar kemur að vinnumarkaðnum og öðru. Við erum mögulega að missa ótrúlega mikið af hæfu fólki úr samfélagslegum störfum og yfir í önnur störf sem fólk kýs sér einungis vegna launa af því að það neyðist til þess, vegna þess að það er með svo há námslán sem það þarf að greiða til baka.“