Hanna Katrín Friðriksson skrifaði:
,,Niðurstaðan er sú að það sem litið var til sem sjöttu bestu fiskveiðistjórnunar í heimi hefur nú orðið fyrir þungu höggi. Landið sem höggið kemur frá er enn eina ferðina komið í alþjóðlegan gapastokk vegna skorts á eftirliti með eigin fyrirtækjum, og vöntunar á vilja til að ganga til allsherjaruppgjörs gegn peningaþvætti. Á meðan ráðherrar eru fangelsaðir í Namibíu þá virðast íslenskir stjórnmálamenn og leiðtogar í atvinnulífinu ganga lausir. Það bendir til þess að hlutirnir geti blessast í Namibíu, meðan það ríkir meiri óvissa um hvað muni gerast á Íslandi.“
Þetta eru lokaorðin í grein sem nýlega birtist í Fiskebladed í Noregi og Magnús Þór Hafsteinsson snaraði yfir á íslensku. Ég birti þýðinguna hér í heild með góðfúslegu leyfi Magnúsar.
Namibíu gæti farnast vel en meiri óvissa ríkir um Ísland
Nils Torsvik, ritstjóri Fiskeribladet:
Noregur aðstoðaði namibísk stjórnvöld við að byggja upp fiskveiðistjórnun á árunum 1990 til 2005. Síðan tóku Íslendingarnir við.
Það var Þróunarsamvinnustofa Noregs – NORAD, sem er fagleg stofnun sem heyrir undir Utanríkisráðuneytið, sem stýrði fyrrum norskri þróunaraðstoð til Namibíu. Þetta var verkefni sem síðar hefur ítrekað verið vitnað til sem vel heppnaðs.
„Namibía er nú í fararbroddi á heimsvísu þegar fiskveiðistjórnun er annars vegar,” getur að lesa í úttekt sem NORAD sjálft gerði á þessari aðstoð. En hefur þetta í reynd verið svo vel heppnað verkefni?
Namibía hlaut sjálfstæði 1990. Afar gjöful fiskimið landsins höfðu til þess tíma verið vettvangur stjórnlausra veiða skipa frá mörgum löndum. Sam Nujoma, leiðtogi namibísku frelsissamtakanna SWAPO, bað Gro Harlem Brundtland þáverandi forsætisráðherra [Noregs] um norskan stuðning við sjávarútvegsgeirann.
Samvinnan hófst strax þegar á sjálfstæðisárinu. NORAD vísar til þess að eitt af fyrstu þáttunum sem Namibía fékk aðstoð við hafi verið að koma á fót 200 sjómílna efnahagslögsögu. Eftir að hafa alls látið af hendi hjálp fyrir um 400 milljónir norskra króna þá lauk Noregur verkefninu 2005.
Þá var það metið svo að Namibía væri búin að byggja upp næga þekkingu og getu til að stýra fiskveiðunum án utan að komandi hjálpar. Síðan hefur ítrekað verið vísað til þess að norska sjávarútvegsaðstoðin í Namibíu hafi heppnast einstaklega vel og hún hefur verið rannsökuð ítarlega.
Þar á meðal af Alþjóða náttúruverndarsjóðnum (WWF) sem birti rannsókn árið 2008 þar sem Namibía skipaði eitt af efstu sætunum yfir þjóðir með góða fiskveiðistjórnun. Þar hafnaði Namibía í sjötta sæti og fyrir ofan landið voru Noregur, Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Ísland. Namíbía var þannig ofar en flest lönd í Evrópu og Asíu.
Ísland stóð ásamt Noregi að þróun fiskveiðistjórnunar í Namibíu og sinnti störfum þar lengur en Norðmennirnir. Frá 1990 til 2011 hefur Ísland reitt af hendi um 150 milljónir norskra króna í aðstoð til Namibíu, aðallega til sjávarútvegsins þar.
Stuttu eftir að formlegri þróunaraðstoð Íslands lauk til Namibíu reyndi Samherji að tryggja sér aðgang að fiskveiðikvótum í landinu. Í ljós kom að þetta var erfitt vegna þess að það voru lagðar hömlur á erlendar fjárfestingar í namibískum sjávarútvegi. Markmið þessara takmarkana var að tryggja að Namibíufólk, og þá sérstaklega þau fátæku, fengju að njóta ávaxtanna af sjávarútveginum.
Lausnin var að nota mútuleiðina að embættis- og stjórnmálamönnum í stjórnsýslu sjávarútvegsins. Þetta er lausn sem virðist hafa heppnast vel hjá Samherja þar til flett var ofan af fyrirtækinu og það kýs nú að draga sig úr fiskveiðum í Namibíu. Ráðherra sjávarútvegs- og dómsmála virðast hafa haft lykilhlutverk í samkrulli [við Samherja] ásamt forstjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor sem er í þjóðareigu – sjávarútvegssamsteypa sem erlendum fyrirtækjum var skylt að eiga samvinnu við og fengu hjá verulega kvóta gegnum mútur.
Það er ekki gott að segja hvað hefur farið úrskeiðis í Namibíu. Ein útskýringin gæti legið í sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra sem notfærðu sér og breyttu löggjöfinni sér í hag. Önnur gæti falist í veikri stjórnsýslu án góðra eftirlitsferla. Gráðugt og kaldrifjað iðnfyrirtæki [Samherji] sem færði sér í nyt velvild í garð eigin þjóðríkis, og sýndi vilja til að stytta sér leiðir, er þriðja skýringin.
Niðurstaðan er sú að það sem litið var til sem sjöttu bestu fiskveiðistjórnunar í heimi hefur nú orðið fyrir þungu höggi. Landið sem höggið kemur frá er enn eina ferðina komið í alþjóðlegan gapastokk vegna skorts á eftirliti með eigin fyrirtækjum, og vöntunar á vilja til að ganga til allsherjaruppgjörs gegn peningaþvætti.
Á meðan ráðherrar eru fangelsaðir í Namibíu þá virðast íslenskir stjórnmálamenn og leiðtogar í atvinnulífinu ganga lausir. Það bendir til þess að hlutirnir geti blessast í Namibíu, meðan það ríkir meiri óvissa um hvað muni gerast á Íslandi.
Þýðing úr norsku: Magnús Þór Hafsteinsson