„Í þessu máli er margt sem vekur tortryggni. Þannig virðist hinn íslenski dómari réttarins hafa gengið fram með einkennilegum hætti.“
Eflaust er að skoðanir ritstjóra Moggans hafa mikil áhrif á þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir virða þær og tileinka sér. Í dag berst þeim opinbert brýningarbréf í leiðara dagsins.
Mogginn er á móti dómi Mannréttindadómstólsins. Það er öllum ljóst. Því ber að gera eins lítið úr honum og dómnum sem hugsast má. Í leiðaranum varð ekki komist að spýta aðeins í átt að Samfylkingunni.
Þar segir að fróðlegt sé að fylgjast með fulltrúum Samfylkingar þegar rætt er um nýfallinn dóm Mannréttindadómstóls Evrópu. „Úrlausn hans varð til þess að sumir þeirra sem hafa ríkustu skyldur til að halda ró sinni og sýna lágmarks yfirvegun hrukku af hjörunum. Í sjálfstýrðu uppnámi voru teknar ákvarðanir sem mátti komast hjá með því að telja upp að þremur.“
Eftir þennan lestur er nokkuð ljóst að það vantar spegla á ritstjóraskrifstofuna. Það sem ritstjórinn ætlar Samfylkingunni má með auðveldasta hætti heimfæra upp á hann sjálfan.
En að brýningarorðum ritstjórans til eigin þingflokks:
Ritstjórinn talar skýrt í eyru þingmanna. Hann vill að þeir skilji orð sín og minnir á að stjórnarskránni hefur ekki verið breytt. Og um leið, henni veður ekki breytt.
„En þeir eru til sem kjósa að láta eins og að sú breyting hafi orðið og þá í þeirra eigin hugskoti sem sé ígildi breytingar á stjórnarskrá. Löglært fólk hlýtur að fyrirverða sig fyrir þannig umgengni við stjórnarskrá landsins.“
Kannski missti ritstjórinn kryddbaukinn á lyklaborðið. Næst er tilraun til að tala dómstólinn niður.
„Hvernig í ósköpunum getur það verið að dómstóll eins og ME sem hendir frá sér fjölda mála eftir ófullkomna og tilviljunarkennda skoðun geri það að „mannréttindamáli“ hvort íslenskir alþingismenn greiði atkvæði um mál í einni lotu samkvæmt áralangri hefð, þó aðeins þegar enginn ágreiningur er í þingsalnum um þá málsmeðferð!“
Og úr því ritstjórinn er byrjaður er um að gera að hnýta í Róbert Spanó dómara við Mannréttindadómstólinn:
„Í þessu máli er margt sem vekur tortryggni. Þannig virðist hinn íslenski dómari réttarins hafa gengið fram með einkennilegum hætti.“