Inga Sæland spurði á Alþingi í dag: „Ég vil því spyrja hæstvirtan forsætisráðherra: Hvað ætlar þessi ríkisstjórn að gera nú þegar aðeins nokkrar vikur eru eftir af löggjafarþinginu til að vernda heimilin í landinu fyrir verðbólgunni? Og hvers vegna styður hæstv. forsætisráðherra ekki frumvarp Flokks fólksins um að setja tímabundið þak á verðtryggingu húsnæðislána og banna slík lán?“
Katrín Jakobsdóttir svaraði: „Það er alveg rétt að þróun verðbólgunnar hefur verið áhyggjuefni. Það liggur hins vegar fyrir að spár gera frekar ráð fyrir því að verðbólgan hjaðni þegar líða tekur á árið og nýjustu spár gera ráð fyrir því að hún lækki milli mánaða. Við skulum sjá hvort það gengur eftir. Það sem hefur leitt verðbólguna er annars vegar húsnæðisverð og hins vegar matarverð. Ég vil segja hvað varðar fasteignamarkaðinn að þar höfum við verið að glíma við uppsafnaðan framboðsvanda. Það er hins vegar verið að byggja mikið núna og meira á þessum árum en hefur verið gert lengi til að mæta þessum framboðsvanda. Það er mjög mikilvægt að þær aðgerðir sem við höfum ráðist í á þessu tímabili verði til þess að við sköpum aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði því að þessi sveiflukenndi húsnæðismarkaður reynist mörgum erfiður og hefur ekki bara áhrif á verðbólgu og verðtryggð lán heldur líka á leigumarkað þar sem einmitt margir hinna tekjulægstu eru og eiga allt sitt undir stöðugum leigumarkaði.“
Rétti upp hönd sem skilur ráðherrann. Það er bráða vandi. Fólk hefur áhyggjur.
„Það er mjög mikilvægt að þær aðgerðir sem við höfum ráðist í á þessu tímabili verði til þess að við sköpum aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði…“ og verða þá allir rólegir? Salla rólegir?