„Er hægt að treysta því að ríkisvaldið okkar standi við samninga og tilheyrandi skuldbindingar sínar þegar á reynir? Svarið ætti að vera sjálfgefið en er það ekki, í ljósi yfirlýstra áforma ríkisstjórnarinnar um að beita valdi sínu á Alþingi til að losa ríkið við að efna skyldur sínar gagnvart lífeyrissjóðum landsins sem eigenda skuldabréfa hjá ÍL-sjóði, áður Íbúðalánasjóði,“ skrifaði Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
„Ríkisstjórnin hyggst þannig slíta ÍL-sjóði einhliða með lögum og greiða lífeyrissjóðum og öðrum skuldabréfaeigendum einungis fyrir eignir sínar að hluta. Afgangurinn skal liggja óbættur hjá garði og ætlast er til þess að skuldabréfaeigendur falli frá kröfum vegna þess hluta eigna sinna.
Margt mætti um þetta mál segja enda er það þannig vaxið að með ólíkindum er. Lagalega stenst gjörningurinn engan veginn enda er það meginregla samningsréttar að samningar skuli standa og að samninga skuli efna. Sá kjarni er dreginn saman í orðatiltæki á latínu: Pacta sunt servanda.
Það sem meira er, hér tölum við um grunnreglu í samskiptum í siðmenntuðu samfélagi. Málshátturinn okkar góði, orð skulu standa, lýsir þessu inntaki vel og hefur stundum verið kallaður ellefta boðorðið,“ skrifaði Þórey. Við þennan lestur er næsta víst að Bjarni Benediktsson er að draga ríkisstjórnina með sér út í botnlaust fen.
„Auðvitað er það svo að í undantekningartilvikum kunna þær aðstæður að skapast að ekki sé unnt að efna samninga og að þeir verði ógildir af einhverjum ástæðum þannig að skuldbindingar falli niður, ýmist að hluta eða að öllu leyti. Slíkt á ekki við í því tilviki sem hér um ræðir, fjarri því. Enginn vafi leikur á að ríkið getur staðið við skuldbindingar sínar og engin neyðarréttarsjónarmið eiga við sem réttlætt geta að ríkisvaldið geri upp skuldbindingar sínar á þann hátt sem það áformar.
Lífeyrissjóðir hafa látið vinna fyrir sig fjölda lögfræðilegra álitsgerða um ÍL-málið frá því það kom upp haustið 2022. Þar ber allt efnislega að sama brunni:
- · Lögfesti Alþingi slit ÍL-sjóðs á þann hátt sem ríkisstjórnin áformar jafngildir það eignarnámi á kröfum skuldabréfaeigenda.
- · Skuldabréfin eru kröfuréttarleg eign sem nýtur verndar ákvæða stjórnarskrár og viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu.
- · Ríkið yrði skaðabótaskylt gagnvart skuldabréfaeigendum.
- · Málið myndi skaða orðspor ríkisins og skerða traust þess sem geranda og viðsemjanda á fjármálamörkuðum.
Minnumst þess að ríkisvaldið kom sér sjálft í þær ógöngur sem það ætlar að bjarga sér úr á kostnað lífeyrissjóða og annarra skuldabréfaeigenda. Þá raunasögu má rekja til ársins 2004 þegar Íbúðalánasjóður sótti sér fé með útboði íbúðabréfa. Þrír flokkar bréfa standa eftir af því útboði, með gjalddaga árin 2024, 2034 og 2044. Samkvæmt skilmálum voru bréfin verðtryggð með föstum 3,75% vöxtum út líftíma sinn. Íbúðalánasjóður notaði fjármunina til íbúðalána en þau mátti síðan greiða upp hvenær sem skuldara hugnaðist. Þar tók ríkissjóður gríðarlega áhættu sem margir vöruðu sterklega við á sínum tíma. Dökkar spár rættust þegar vextir íbúðalána lækkuðu og fjöldi viðskiptavina Íbúðalánasjóðs greiddi upp lán sín með ódýrara lánsfé annars staðar frá. Eftir sat ÍL-sjóður með fjármuni sem ávaxtaðir hafa verið á lægri vöxtum og duga því ekki til að standa undir skuldbindingum sjóðsins gagnvart eigendum skuldabréfanna – sem að stærstum hluta eru lífeyrissjóðir landsmanna.“
Nú er komið að lokakaflanum:
„Íbúðalánasjóður vogaði fé sínu en það gildir nú sem fyrr að vogun vinnur, vogun tapar. Í þessu tilviki tapaði vogunin. Ríkið á ekki að komast upp með að varpa ábyrgð sinni yfir á viðsemjendur sína, eigendur skuldabréfanna.
Stjórnum lífeyrissjóða er óheimilt að samþykkja eignaupptöku sem fælist í niðurstöðu á borð við þá sem hér er um rætt. Forystusveitir sjóðanna hafa hins vegar ítrekað lýst vilja til að semja við ríkið um uppgjör sem fælist í því að taka við tilteknum eignum í stað skuldabréfa ÍL-sjóðs. Skilyrt er að verðmæti slíkra eigna jafngilti verðmæti skuldabréfa sem gefin yrðu eftir.
Hið eina rökrétta af hálfu ríkisvaldsins er að aflýsa þegar í stað vanhugsuðum og löglausum áformum sínum og kjósa frekar samningaleiðina með fullar efndir í huga. Það er hin eðlilega samskiptaleið og siðaðra manna háttur.“
Greinin birtist fyrst í Mogga gærdagsins.