- Advertisement -

Orð forsætisráðherra lykta af lýðskrumi

Stjórnmál „Í núverandi kvótakerfi er engin vörn fyrir byggðirnar. Sitjandi stjórnvöld lögðust alfarið gegn þeim byggðaaðgerðum sem fólust í frumvarpi fyrri ríkisstjórnar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þessi stjórnvöld hleyptu ekki í gegn frumvarpi um brothættar byggðir sem lagt var fram á vorþingi 2013 þó það væri verið að koma til móts við veikustu byggðirnar en neyddust til að taka þá aðgerð upp þegar þeir komust til valda eftir þrýsting frá VG og Byggðastofnun,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis, um þau orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, í þættinum Sprengisandur á  Bylgjunni í gær, að til greina koma sérstakar aðgerðir vegna byggðarlaga í vanda.

Orðrétt sagði forsætisráðherra: „Ég tel mikilvægt að fiskveiðistjórnunarkerfið sé til þess fallið að verja byggðirnar, það er að segja að ekki verði til staðar sú hætta að atvinnustig heilu landshlutanna hrynji vegna tilfæringa í greininni. Ég veit að sjávarútvegsráðherrann leggur mikið upp úr við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt ekki bara þær byggðir sem yrðu illa úti, því allt helst þetta í hendur.“

„Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því að þessi hægri stjórn sem varið hefur framsalið í öll þessi ár og leyft óhefta hagræðingu á kostnað sjávarbyggðanna ætli nú að koma með félagslegar aðgerðir og binda aflaheimildir við sjávarplássin. En batnandi mönnum er best að lifa og aldrei að segja aldrei en þetta lyktar af lýðskrumi,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: