- Advertisement -

Óraunhæfar hugmyndir um „ofsagróða“ Landsvirkjunar

Næstum allt er dýrara hér á landi en annars staðar.

Ragnar Önundarson skrifar:

Virkjanir eru verkefni, project. Þær eru fjármagnaðar með því að afla þeim tekna sem passa á móti gjöldunum, lána út á þær, þetta er nefnt „project finance“. Stundum er fjármögnunin háð þessari tengingu. Vilji banka til að lána er þá líka vegna tengsla bankans við kaupanda orkunnar. Án þessa vilja verður / varð ekkert af verkefninu. Fjárfesting í stóriðju og virkjunum á þessum „útkjálka við ysta haf“ osfrv. er ekki auðveld ákvörðun fyrir erlent fyrirtæki. Hér eru engir alvöru markaðir að reiða sig á. Fámennur vinnumarkaður og sögusagnir um „herská“ verkalýðsfélög fá menn til að hika. Fjárfesting hér á landi verður að vera verulega arðsöm.

Ávinningur okkar hefur ekki síst verið fólginn í að endingartími virkjunarinnar er líklega allt að 5-faldur niðurgreiðslu- (samnings-) tíminn. Við eignuðumst skuldlausa virkjun sem framleiðir grænustu orkuna á aðeins 1/5 endingartímans. Þeir sem héldu á málum Íslands (Landsvirkjunar) voru að búa í haginn fyrir framtíðina, hugsa um okkur öll og afkomendur okkar. Ég vil að þeirra fyrirætlun nái fram að ganga. Innan við 20% orkunnar fer til almennrar notkunar heimila og fyrirtækja.

Enga einkavæðingu, fyrr förum við út úr EES!

ESB snýst um einn sameiginlegan samkeppnismarkað og „fjórfrelsið“, frjálsa för vöru, þjónustu, fólks og fjármagns um þennan markað. ESB hefur veitt fresti til aðlögunar, en aldrei gefið þetta eftir til frambúðar. Íslenski raforkumarkaðurinn er ekki samkeppnismarkaður. Ef ég flytti viðskipti mín til annars framleiðanda hefði ég kannski 1.500-2.000 kr. á ári upp úr því, ekkert sem skiptir máli. ESB mun ekki telja sig geta gefið það fordæmi að gefa eftir. Við erum núna að njóta lágs orkuverðs. Rétta stefnan er að halda áfram á sömu braut: Selja orku til stóriðju á verði sem er bæði henni hagstætt og nægir til að greiða virkjanir niður á styttri tíma en svarar til endingartíma þeirra. Hugmyndir um „ofsagróða“ Landsvirkjunar eru óraunhæfar. LV á að vera áfram til fyrir íbúa landsins.

Næstum allt er dýrara hér á landi en annars staðar. Þess vegna vil ég ekki gefa það eftir að halda orkuverðinu lágu til heimila og íslenskra fyrirtækja. Þjóðin er búin að ábyrgjast LV í hálfa öld, á meðan hún seldi orku á lágu verði til að eignast skuldlausar virkjanir síðar. Nú er sá tími kominn og ég vil að staðið verði við loforðin um ódýra orku og ég vil umfram allt að virkjanirnar verði áfram í sameign þjóðarinnar. Enga einkavæðingu, fyrr förum við út úr EES!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: