Ora græna baunir komnar á útsölu

…við verðum að hvetja okkar félagsmenn til að hunsa vörur frá þessu fyrirtæki…

Sólveig Anna:
Valdið er okkar – ekki þeirra.

„ÍSAM auðvaldið útvegar kennsluefnið í
viðvarandi kennslustundina sem við sitjum öll um þessar mundir. Hugmyndafræði
nýfrjálshyggjunnar sem hefur verið troðið ofaní okkur eins og kássu búinni til
úr grænum baunum, sýrópi, fransbrauði, kexi, síld og tannkremi (og argað um
leið og við kúgumst: Þetta er víst gott, aumingi!) hefur sem grundvallarlygi að
ekkert sé betra fyrir lýðræðið en óheft markaðsfrelsi. En ekkert er
and-lýðræðislegra en auðvaldið, það er gömul saga og glæný. Ætli við verðum
ekki bara að vera pínku glöð yfir því að Hermann afhjúpar sig og sinn þankagang
svona rösklega. Það hlýtur að færa okkur endurnýjaðan baráttuanda og skarpan
fókus á það hversvegna breytingar eru nauðsynlegar í samfélaginu.“

Þannig skrifaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður
Eflingar, eftir að stjórnendur ÍSAM boðuðu verðhækkanir, og það á meðan greidd
voru atkvæði um nýju kjarasamningana.

„Fleiri fyrirtæki hafa hækkað eigin vöru.
Sama á að gilda um þau. Við eigum einnig að sniðganga þau rétt eins og byrjað
er að gera við ÍSAM. Valdið er okkar – ekki þeirra,“ skrifaði Sólveig Anna.

Hvort það er vegna þessa
sem stjórnendur ÍSAM hafa sett Ora grænar baunir á útsölu er ekki vitað, en
kannski.

Vilhjálmur Birgisson:
Þessi hótun er með svo miklum ólíkindum.

Vilhjálmur Birgisson brást einnig við.

„Þessi hótun er með svo miklum ólíkindum í
ljósi þess að samningsaðilar voru sammála um að lífkjarasamningurinn myndi
stuðla að verðstöðugleika og myndi leiða til lækkunar vaxta, en nú er ljóst að
þetta fyrirtæki ætlar ekki að taka þátt í því að láta lífkjarasamninginn skila
þeim ávinningi til launafólks eins og til stóð.

Á þeirri forsendu er ljóst
að verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þessari hótun með
afgerandi hætti og tel ég morgunljóst að við verðum að hvetja okkar
félagsmenn til að hunsa vörur frá þessu fyrirtæki ef fyrirtækið stendur við
hótun sína.“