En líklegast er að fyrrnefndir hópar hafi hlustað betur en meðaltalið vegna vinsemdar eða hreinnar flokkshollustu.
„Það má benda á að sá hluti íslensku þjóðarinnar sem lætur sig helst varða það sem frá Sjálfstæðisflokknum kemur og er enn drjúgur þótt skroppið hafi saman seinasta rúma áratuginn, taldi ástæðulaust að hafa áhyggjur af undirmálum í þessu orkupakkamáli,“ skrifar formaðurinn fyrrverandi.
Það ber að hlusta þegar Davíð Oddsson tjáir sig um átökin innan Sjálfstæðisflokksins. Víst virðist að Davíð er fjarri sáttur við formennsku Bjarna Benediktssonar. Áhrif Davíðs innan flokksins eru enn nokkur. Einkum meðal þeirra eldri.
Af lestri skrifa Davíðs, sem og annarra af hans kynslóð, er víst að Sjálfstæðisflokkurinn á í miklum vanda. Ekki bara fjárhagslega heldur og einnig pólitískt. Orkupakkinn er ekki aðalmálið. Hann er kornið sem fyllti mælinn. Lengi hefur kraumað undir. Þar vegur Icesave sennilega þyngst.
Davíð kýs að árétta málflutning Bjarna hvað varðar orkupakkann:
„Landsfundur flokksins hafði tekið af þunga á því máli seinast þegar hann mátti. Það styrkti almenna flokksmenn í góðri trú sinni að fyrir réttu ári lagði formaður flokksins lykkju á sína leið í ræðustól Alþingis og hnykkti á stefnu flokksins með mjög afgerandi hætti svo enginn maður velktist í vafa um eitt né neitt. Hann sagði: „Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra? Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innrimarkaðsmál.““
Formaðurinn og flokkshollustan
„Satt best að segja er þarna kveðið miklu fastar að en formaðurinn temur sér alla jafnan. Ekkert fer á milli mála. Formaðurinn var vissulega ekki að tala til kjósenda þess flokks sérstaklega eða félaga í þeim flokki. Hann talaði til allrar þjóðarinnar. En líklegast er að fyrrnefndir hópar hafi hlustað betur en meðaltalið vegna vinsemdar eða hreinnar flokkshollustu. Og þessar yfirlýsingar komu þeim ekki á óvart. Sjálfstæðismenn telja það reglu en ekki undantekningu að formaðurinn tali í takt við það sem flokkurinn samþykki á Landsfundum sínum,“ skrifar Davíð.
Fleiri þingmenn bregðast
„En skyndilega tóku einstakir þingmenn, þeirra á meðal þeir sem margur hefur talið sér óhætt að bera gott traust til, að birta pistla eins og vottar sem gengu þvert á það sem Landsfundur hafði samþykkt og formaðurinn ítrekað með svo afgerandi hætti að athygli og aðdáun vakti. Því er spurt í stíl formannsins sjálfs: Hvað í ósköpunum gengur mönnum til?
Kostirnir sem eru í boði eru aðeins tveir. „Kosturinn“ við málið er talinn að halda megi því fram að þótt ágreiningslaust sé að það sé vita gagnslaust og ástæðulaust fyrir Ísland, sé ekki nægilega öruggt að það sé hættulegt fyrir Ísland og ekki heldur sé algjörlega öruggt að stjórnarskráin sé brotin.
Ókostur málsins felst í óafturkræfum og óbætanlegum skrefum sem fara í bága við stjórnarskrá landsins. Þetta dugar öllum sem bera hag Íslands fyrir brjósti. Og þeir og aðrir munu sjálfsagt einnig hugsa til þeirra raka sem formaður Sjálfstæðisflokksins flutti af þunga á þingi.“