Ávarp Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar skrifar, líkt og aðrir forsvarsmenn íslensku flokkanna, áramótagrein í Morgunblaðið í dag.
Hér fer hluti hennar:
Fæddist fítónskraftur í íslensku samfélagi
„En eins og þegar náttúruhamfarir dynja yfir þá fæddist einhver fítónskraftur í íslensku samfélagi. Almenningur reis upp, kynnti sér málin og tók þátt. Í öllu svartnættinu var þetta ljós það sem hélt okkur gangandi. Pólitík snýst um að taka ábyrgð og íslenska þjóðin tók ábyrgð, sameiginlega. Tvennt var kristaltært; við skyldum djöflast í gegnum þetta hvað sem það kostaði og hitt, að við skyldum læra af mistökum fortíðar og passa upp á að endurtaka þau aldrei aftur. Það er upp úr þessum krafti og þessari hugsjón sem ég starfa í stjórnmálum. það er upp úr þessum jarðvegi sem Björt framtíð er stofnuð. Það er draumurinn um umbætur og siðbót.
Það þurfti miklar fórnir til. Gengishrun með kostnaðarauka og hækkanir skulda gengu yfir allt samfélagið. Skerðingar á bótum og kaupmáttarrýrnun bitnuðu á þeim sem síst skyldi. Þau okkar sem héldu vinnunni sættum okkur við kauplækkanir. Þeir sem reyndu að skjóta sér undan því að axla sameiginlega ábyrgð voru umsvifalaust úthrópaðir. Internetið var ekki fundið upp í hruninu, en í hruninu tók það við stöðnuðum boðleiðum sumra og varð rödd allra. Er nema von að sumir kveinki sér stundum undan því að hafa misst einkaleyfið á því að hafa rödd. Við endurskipulögðum fjármálakerfið, skófluðum okkur í gegnum skuldaskaflana. Við þéttum reglu og lagaverk, styrktum stofnanir sem eiga að fylgja því eftir og settum kröfuna um gagnsæi og jafnræði á oddinn. Við kusum stjórnlagaráð til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins til þess að meitla þessa nýju hugsun í stein. En hvað hefur síðan skeð?“
Grátlegur seinagangur í endurskoðun á stjórnarskrá
„Vonbrigðin yfir vandræðagangi stjórnvalda eru töluverð. Seinagangurinn í endurskoðun á stjórnarskrá er grátlegur. Enn er órætt að jafna atkvæðisvægi, fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks osfrv, osfrv. Áhersla sumra á að viðhalda íslensku krónunni, þrátt fyrir sorgarsögu hennar svo að segja frá upphafi, er óskiljanleg. Er það vegna sérhagsmuna þeirra sem hagnast á öldugangi gjaldmiðilsins? Eða erum við orðin svo háð því að halda í þá hækju sem gengisfellingar eru að við þorum ekki að sleppa henni? Stórt er spurt.“
Kröfur um aukið lýðræði
„Á sama tíma leggur forsætisráðherra áherslu á að endurskipuleggja höfuðborgina í stíl liðins tíma. Fjármálaráðherra vill endureinkavæða banka og dreifa smásneið af þeirri köku til landsmanna. Hann bendir á hvað það sé einfalt að gera þetta á hlutabréfareikningnum eins og almenningur sé almennt vel að sér í slíku. Utanríkisráðherra reynir að sniðganga þing og þjóð, þvert ofan í fyrri loforð, og stöðva aðildarumsókn að Evrópubandalaginu af því að honum finnst það sniðugt. Forysta stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd amast út í varnaðarorð stjórnenda í heilbrigðiskerfinu, hrýs hugur við kostnaði við rekstur eftirlitsstofnana og leggur til niðurskurð hjá embætti umboðsmanns alþingis. Kröfur um aukið lýðræði, breiðara samráð, opnari og gagnsærri vinnubrögð eru hlegnar út af borðinu sem samsæriskenningar andstæðinga. Þetta eru ekki góð skilaboð og geta seint talist uppbyggileg vinnubrögð.“
Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.