Um fjögur þúsund manns hafa látið vita að þau ætli að mótmæla á Austurvelli í dag kl 17. Mótmælin eru önnur í röðinni en um 4.500 mættu á mótmælin síðasta mánudag og fóru þau friðsamlega fram þótt mótmælendur létu í sér heyra. Í þetta sinn er áherslan lögð á heilbrigðiskerfið. Þá verður sýndur stuðningur við skúringarkonur sem sagt var upp nýlega í stjórnarráðinu. Aftur verður safnað á staðnum til stuðnings bágstöddum heimilum.
Sami hópur og stóð að baki mótmælunum sl. mánudag þar sem milli fjögur og fimm þúsund manns mættu til að mótmæla ýmsum aðgerðum eða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hyggjast efna til annarra mótmæla í dag kl 17 við Alþingishúsið. Á síðu hópsins má sjá lista yfir mörg atriði sem fólk vill mótmæla og gat fólk kosið milli þeirra eða komið með eigin tillögu. Efstu tíu atriðin eru svo valin sem áhersluatriði. Meðal tillagna má sjá ýmislegt sem tengist heilbrigðiskerfinu, kjörum aldraðra og öryrkja, matarskatti, bókaskatti, afsögn ráðherra og fleira.
Í mótmælunum í síðustu viku fór fram söfnun fyrir nauðstadda og segja aðstandendur síðunnar að þar sem hún hafi heppnast einkar vel verði haldið áfram að safna í dag. Síðasta mánudag safnaðist um 110.000kr og var upphæðinni komið til fésbókarhópsins Matargjafir en á þeirri síðu lætur fólk vita ef það er matar aflögu og vill gefa öðrum. Á síðu mótmælanna segir: Þetta eru ekki bara mótmæli, þetta eru líka meðmæli, þar sem við sýnum í verki hvað við getum verið frábært samfélag.
Fólk er hvatt til að koma með skilti, hljóðfæri, fána, búsáhöld og ljós, til að vísa ríkisstjórninni veginn. Mótmælendur eru sérstaklega hvattir til að koma með kústa til að sýna ræstingakonum stjórnarráðsins stuðning, en þeim var nýverið sagt upp störfum.
Kári Örn Hinriksson, krabbameinssjúklingur og blaðamaður, flytur ávarp og Snorri Helgason, tónlistarmaður, stígur á stokk.
Í dag mun ríkisstjórnin einnig tilkynna um niðurstöðu niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í samtali við RÚV að hann hefði þó ekki áhyggjur af því að mótmæli hafi truflandi áhrif á þá kynningu. Hann sagði sömuleiðis að á þeim mótmælum sem fóru fram á mánudaginn var hafi verið fjölmargir hópar með ólíkar áherslur innbyrðis. Það sé því álitamál hvort það sé góð leið til að koma tilteknum áherslum á framfæri að blanda þeim öllum saman. Menn ættu því kannski að velja sér aðrar dagsetningar til að geta betur lagt áherslu á tiltekin atriði. Hann bggist því ekki við að mótmælin myndu trufla kynninguna.