Leiðari Banabiti ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar er hreint ömurlegur. Öllu var til fórnað í tilraun til að slá þögn og leynd yfir stöðu og málameðferð barnaníðinga. Hvers vegna vissum við ekki. Nú vitum við hvers vegna.
Bjarni virkaði hrokafullur á blaðamannafundinum áðan. Talaði niður til annarra. Hann sér ekki að öðrum kann að þykja aðfinnsluvert hvernig flokkur Bjarna hefur haldið á þeim viðkvæmu málum sem hafa nú fellt hans eigin ríkisstjórn.
Aum er staða þeirra þingmanna og ráðherra sem létu undan og fórnuðu eigin pólitískri framtíð í þessari gölnu tilraun Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokknum hefur ekki auðnast, í tíu ár, að sitja í ríkisstjórn heilt kjörtímabil. Það eru miklar breytingar frá því sem var í valdatíð Davíðs Oddssonar. Því er ótrúlegt að heyra Bjarna endurtaka að þörf sé á að hafa sterkan flokk, með sterkar rætur sem stendur af sér vindhviður.
Kosningabaráttan mun eflaust snúast talsvert um Sjálfstæðisflokkinn. Ljóst er að þeir hafa gefið tóninn. Nú á að selja kjósendum þá hugmynd að sterki flokkurinn sé þjóðin nauðsynlegur.
Þetta hljómar ekki vel, er ekki sterkt upplegg hjá flokki sem nær aldrei að sitja í stjórn heilt kjörtímabil.
Sigurjón M. Egilsson.