Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens segir að Sjálfstæðismenn séu búnir að missa öll tengsl við þjóðina. Í færslu sem hann birtir á Facebook bendir Bubbi réttilega á að Sjálfstæðismenn séu uppteknir við að velta sér upp úr hvalveiðum meðan verðbólga og lág laun rýja almenning inn að skinni.
„Er verið að ræða stuðning við barnafjölskyldur, ungt fólk sem getur ekki keypt sér fyrstu íbúð? Er verið að ræða hvernig á að ná verðbólgunni niður? Er verið að ræða hvernig við getum hjálpað þeim lægst launuðu? NEI,“ skrifar Bubbi og heldur áfram:
„Það er verið að ræða hvernig sé hægt að starta hvalveiðum aftur og klína vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur. Sjálfstæðismenn hafa misst klefann. Þetta er efst í þeirra huga. Lífið er dásamlegt hjá mörgum en ekki öllum og sýnist það hjá Sjálfstæðimönnum þessi dægrin vera ömurlegt.“