Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Teitur Guðmundsson læknir skrifar grein um þann árangur sem náðist í að hefta útbreiðslu Covid-19 inni á íslenskum hjúkrunarheimilum. Hann segir „Árangurinn er að mínu mati heimsmet á þessum viðsjárverðu tímum þar sem flest lönd í kringum okkur hafa misst hvað flesta einstaklinga sem einmitt eru íbúar hjúkrunar- og dvalarrýma“ og þakkar hann ekki síst starfsfólkinu sem stóð sig einstaklega vel í að tryggja heilsu og öryggi gamals fólks: „Ég vil hrósa sérstaklega, og alls ekki gleyma, þeim hópi sem stóð vaktina með bravúr á hjúkrunarheimilum, allir sem einn um landið allt. Hrósa því hvernig hópurinn vann saman að bæði lokun heimsókna, nálgun á vinnu og ferla sína, erfiða umönnun í krefjandi kringumstæðum, stóð í fæturnar þrátt fyrir gagnrýni og gekk í málið með það að leiðarljósi að vernda íbúa sína, foreldra ykkar, ömmur og afa, bræður, systur, frænkur og frændur. Fólkið sem byggði þetta land og á allt gott skilið var verndað og þann undraverða árangur sem náðist ber mikið að þakka starfsfólki hjúkrunarheimila.“
Í Eflingu eru um það bil 1800 félagar sem starfa á hjúkrunarheimilunum sem tilheyra Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Við erum nú í samningaviðræðum fyrir þeirra hönd. Við höfum sett fram nákvæmlega sömu kröfu og í viðræðunum við Reykjavíkurborg, ríki og SÍS; að framkvæmd verði það sem við köllum leiðréttingu á sögulega vanmetnum kvennastörfum. Og ég trúi því að sá árangur muni nást og það án erfiðleika, semsagt að við kröfu okkar verði brugðist hratt og örugglega. Vegna þess að það getur einfaldlega ekki verið að neinum detti annað í hug, eftir þá miklu fórnfýsi og það mikla álag sem félagsfólk Eflingar sem starfar á hjúkrunarheimilunum hefur sýnt og verið undir, en að vilja sýna í verki viðurkenningu og skilning á því að þau eru bókstaflega ómissandi starfsfólk í íslensku samfélagi. Ég vona að innan skamms geti ég fært ykkur fregnir af því að slíkur kjarasamningur hafi verið undirritaður á milli Eflingar og SFV.