Áhugaleysi stóru fjölmiðlanna á sjálftöku þingmanna vekur athygli. Morgunblaðið gerir eina undantekningu og hefur blaðamaður sýnilega hringt í forseta Alþingis, Steingrím J. Sigfússon. Svo er að sjá sem hann hafi ekki verið sérlega upprifinn.
Hann benti á að þingmenn hafi sætt ónæði síðustu daga þar sem þeir hafi verið margspurðir um greiðslur sem þeir fá vegna þingmennskunnar. Morgunblaðið segir forsetann hafa vísað í „háværa umræðu“ um aksturskostnað. Steingrímur þvertók fyrir að hugmyndir um að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna hefðu nokkuð með umræðuna að gera eða ákall fólks og nýrri fjölmiðla um að auðvelda fólki og fjölmiðlum að nálgast upplýsingar um eiginleg kjör þingmanna.
„Nei, þetta var meðal annars rætt í forsætisnefnd í síðasta mánuði, löngu áður en þessi akstursumræða kom upp,“ sagði Steingrímur við Moggann.
„Fyrir hafa legið í drögum reglur um fyrirkomulagið og hefur í þeim efnum verið horft til þess hvernig önnur þing haga upplýsingum um þessi mál. Markmiðið er að engin leynd sé yfir neinu sem varðar almenn kjör og greiðslur til þingmanna og fullkomið gagnsæi ríki.“
Ætla má að fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar hefur ekki aukið kæti þeirra þingmanna sem vilja frekar geta haldið áfram að maka krókinn, án vitneskju þjóðarinnar. Allar upplýsingar verða hins vegar að koma fram. Nú er að bíða og sjá hver framvindan verður. Verður leyndin aflétt?
-sme