„Þeir sem nenna geta flett því upp í einhverjum Peningamálum Seðlabanka Íslands, að hagfræðingar bankans héldu því fram fyrir ekki svo mörgum árum, að það taki breytingar á stýrivöxtum/meginvöxtum bankans 12-18 mánuði að skila þeirri breytingu á vísitölu neysluverðs, sem ætlað er að ná með breytingunni. Þrátt fyrir þessa skoðun hagfræðinga bankans, þá hefur bankinn enn á ný ákveðið að hækka vexti sína án þess að gefa fyrri vaxtahækkunum svigrúm til að sannan sig,“ skrifar Marinó G. Njálsson á Facebook.
„Ég vil gjarnan vita, hver af stýrivaxtabreytingum bankans frá vormánuðum fram á haust árið 2021 var ekki að skila þeim árangri sem bankinn stefndi á? Getur verið að það hafi verið stýrivaxtalækkanirnar fram á vorið 2021 sem eru sökudólgurinn eða skortur á hliðaraðgerðum Seðlabankans samhliða lækkunum sem eru að hafa mest áhrif. Eða með öðrum orðum: Voru það mistök Seðlabankans við peningamálastjórnun sem eru stór orsakavaldur í þeirri verðbólgu, sem landsmenn búa við?
Til að skýra þetta aðeins betur út, þá gátu flestir sem nenntu að hugsa málin, séð að húsnæðisbóla væri farinn af stað á haustmánuðum 2020. Hún var vissulega ekki kominn á þann stað, sem síðar varð, en fasteignaverð var byrjað að þróast nokkuð hratt til bólumyndunar. Seðlabankastjóri sagði m.a. þegar hann var spurður út í þetta á þessum tíma (man ekki hvort það var síðla árs 2020 eða á fyrstu mánuðum árs 2021) að Seðlabankinn sæi ekki að húsnæðibóla væri kominn upp, en að bankinn þyrfti að vera vakandi fyrir því að slíkt ástand gæti skapast. (Samt var fasteignaverð á þessum mánuðum að fylgja ekki ólíkri þróun og þegar húsnæðisbóla gaus upp fyrir hrun.)
Sé aftur vísað til þess að það taki vaxtabreytingu 12-18 mánuði að skila tilætluðum árangri og Seðlabankinn gat séð fyrir sér að húsnæðisbóla yrði mögulega að veruleika, þá hefði ég talið að í síðasta lagi samhliða fyrstu hækkun stýrivaxta/meginvaxta árið 2021, þá hefði bankinn átt að grípa til aðgerða til að draga úr verðhækkun húsnæðis. Hann greip loksins til slíkra aðgerða núna í sumar, þ.e. 12-15 mánuðum eftir að vextirnir fóru að hækka.
En ég vil ganga lengra og segja, að í fyrravor var skíturinn þegar kominn í buxurnar. Hann fór að leka niður þegar bankinn hafði gengið of langt í vaxtalækkunum sínum. Í mínum huga, var það óábyrgt af bankanum, að lækka vexti eins mikið og hann gerði, án þess að herða á kröfum við greiðslumat vegna fasteignakaupa.
Núna eru í gildi reglur, sem segja að fasteignakaupendur verða að standast greiðslumat þar sem tekið er tillit til 40% hækkunar á greiðslubyrði. Hvers konar rök eru það, að setja slíka reglu, þegar mánaðarleg greiðslubyrði lána eru þegar búnar að hækka um tugi prósenta er líklega nálægt hámarki, en ekki þegar greiðslubyrðin var óeðlilega lág og hún gat ekki gert neitt annað en að hækka? Ég vil ganga svo langt að segja, að Seðlabankinn hafi hreinlega leitt fasteignakaupendur í gildru með því að breyta ekki kröfum sínum til greiðslumatsins meðan vextirnir voru í sögulegu lágmarki, meðan að öllum mátti vera ljóst, að innan ekki of langs tíma þá hlytu þeir að hækka og það all verulega.
Ég hefði sem sagt viljað, að strax haustið 2020 hefði Seðlabankinn gert stífari kröfur vegna greiðslumats, þannig að í greiðslumatinu þyrftu fasteignakaupendur að standa undir, t.d. meðalvaxtastigi síðustu 12-24 mánaða eða eins og er núna, 40% hærri greiðslubyrði lánanna. Það hefði nefnilega átt að vera ÖLLUM ljóst og sérstaklega sérfræðingum sem hafa það að atvinnu að fylgjast með og rannsaka þessi mál, að vaxtastigið var mjög óvenjulegt frá miðju ári 2020 og það myndi ekki halda til langs tíma. Í lánaumhverfi, þar sem ekki er boðið upp á fasta vexti til langs tíma, þá var það sjálfgefið að greiðslubyrðin myndi hækka og það verulega.
Í annað sinn á 20 árum brást Seðlabankinn rangt við mikilli og ósjálfsbærri lækkun húsnæðisvaxta. Og í annað sinn á sama tíma eru húsnæðiskaupendur að súpa seyðið af röngum viðbrögðum bankans. Þó hækkun greiðslubyrðinnar núna sé ekki eins mikil og 2007-2009, þá er hún af svipuðum meiði.
Er eitthvað sem bannar Seðlabankanum að læra af mistökum sínum? Í einhverjum tilfellum gæti hann skýlt sig að baki mannabreytingum, en fram að bankahruni var núverandi seðlabankastjóri mjög virkur í gagnrýni sinni á þáverandi stjórnendur bankans og núverandi aðalhagfræðingur Seðlabankans myndaði hagfræðingateymi innan bankans, sem virtist öllu stjórna. Mig langar að vita hvaða lærdóm þessir tveir menn drógu af húsnæðisbólunni fyrir hrun og hvers vegna eru sambærilegir (ekki eins) hlutir að gerast á þeirra vakt núna.
Ég er ekki að vera vitur eftir á, því að ég hvatti til þess að Seðlabankinn notaði fleiri tól í kistunni sinni samhliða lækkun stýrivaxtanna og síðan aftur samhliða hækkun þeirra aftur. Ég taldi alveg ljóst hvert stefndi í á húsnæðismarkaði frá og með ársbyrjun 2021 og varaði við því að ný húsnæðisbóla væri að skella á. Ef ég sá þetta, þá hefði ég haldið að sérfræðingar Seðlabankans hefðu líka séð þetta. Ég neita að trúa öðru og spyr því hvers vegna Seðlabankinn greip ekki inn í.“
Fyrirsögnin er Miðjunnar.