Óli Jó rekinn sem þjálfari FH: Heimir Guðjónsson og Davíð Þór í sigtinu
Ólafur Jóhannesson er ekki lengur þjálfari karlaliðs FH í fótbolta; hann og aðstoðarmaður hans, Sigurbjörn Hreiðarsson, voru látnir taka pokann sinn eftir jafntefli gegn Leikini, 2-2, í gærkvöld.
Óhætt er að segja að gengi FH-inga í sumar hafi ekki verið upp á marga fiska; liðið er með átta stig eftir fyrstu níu umferðirnar.
Staða FH í dag er gjörbreytt miðað við að félagið var lengi á toppnum í íslenskum fótbolta; félagið raðaði inn titlunum á árunum 2004 til 2016 og gerði vel í Evrópukeppnunum.
Eftir að FH rak Heimi Guðjónsson eftir sumarið 2017, þar sem félagið náði „aðeins“ þriðja sæti í deild og öðru sæti í bikar, réð liðið Ólaf Kristjánsson til að taka við þjálfuninni.
Síðan þá hefur leið FH aðeins legið niður á við – nokkrir þjálfarar hafa komið og farið eftir að Ólafur var rekinn fyrir um tveimur árum; og nú er stóra spurningin:
Hver tekur við keflinu?
Samkvæmt heimildum Miðjunnar eru FH-ingar að vonast til þess að ná að landa Heimi Guðjónssyni á nýjan leik, en hann er samningsbundinn Val.
Hins vegar hefur gengið illa hjá Val í sumar og mikið rætt um að Heimir verði látinn fara fljótlega. Heimir sagði nýlega í viðtali að hann gæti vel hugsað sér að taka á ný við FH.
Aðrar heimildir Miðjunnar herma að Davíð Þór Viðarsson muni taka við sem þjálfari FH.