Óli Björn „villiköttur“ í stjórnarandstöðu
Óli Björn Kárason, einn helsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tilkynnt andstöðu sína við þrjú stjórnarfrumvörp. Óli Björn skrifar í Mogga dagsins:
„Á komandi vikum verð ég, líkt og aðrir þingmenn, að taka afstöðu til margvíslegra mála. Ég get ekki stuðst við annað en þann leiðarvísi sem sannfæring og sjálfstæðisstefnan gefa. Oft þarf ég að sveigja eitthvað af leið en ákveðin grunnprinsipp verða ekki brotin. Ekki þegar kemur að þvingunaraðgerðum gagnvart sveitarfélögum, ekki við stofnun miðhálendisþjóðgarðs, fjölmiðlafrumvarpi og ekki við endurskoðun sóttvarnalaga. Listinn er (óþægilega) langur.“
Fyrr í grein sinni vitnar hann til nokkurra ára gamalla orða Davíðs Oddssonar.
„Forystumenn og áhrifamiklir hugsjónamenn Sjálfstæðisflokksins hafa á rúmum 90 árum meitlað grunnhugsjónina um mannhelgi og að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Forsenda þess að einstaklingar geti notið hæfileika sinna er að þeir hafi frelsi til athafna. Markmiðið er að tryggja „frelsi fyrir alla, ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka, sem nota afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum“, eins og Davíð Oddsson sagði í ræðu í tilefni af 75 ára afmæli flokksins.“
Hvað um það. Komandi vikur á Alþingi verða kraftmiklar. Vel má trúa að Óli Björn sé ekki eini „villikötturinn“ í Sjálfstæðisflokki.