Ekki virðist vera mikill kærleikur á stjórnarheimilinu. Óli Björn Kárason veður í Sigurð Inga formann Framsóknar og innviðaráðherra án þess þó að nefna hann á nafn. Tilefnið er þvinganir ráðherrans til að fá sveitarfélög til sameiningar. Hér verður vitnað til vikulegrar Moggagreinar Óla Björns:
Í samráðsgátt stjórnvalda liggur skýrsla starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi um breytingar á lögum um sjóðinn. Um það verður ekki deilt að endurskoðunin er löngu tímabær. En tillögur að breytingum valda mér áhyggjum og þá ekki síst tvö af meginmarkmiðum sem virðist vera stefnt að:
Að beita sveitarfélög fjárhagslegum þvingunum til sameiningar í stað þess að innleiða fjárhagslega hvata.
Að þvinga sveitarfélög til að leggja á hámarksútsvar. „Vannýting“ útsvars verður dregin frá framlögum úr Jöfnunarsjóði. Sem sagt: Nýti „sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags“. Hið sama á við um álagningu fasteignagjalda.
Nái þessar tillögur fram að ganga verður refsivendinum beitt harkalega gagnvart þeim sveitarfélögum sem hafa ákveðið að gæta hófsemi í álögum á íbúa – hófsemi sem þeim er tryggð í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Tillögur um refsingu vegna „vannýtingar“ afnemur í reynd 3. og 23. gr. laganna, annars vegar um fasteignagjöld og hins vegar útsvar. Og þá er spurning um raunverulegt sjálfstæði sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu.
Svo það sé skýrt. Á meðan ég sit á þingi mun ég aldrei samþykkja breytingar af þessu tagi, jafnvel þótt gildandi reglur um Jöfnunarsjóðinn séu í mörgu gallaðar.
Það eru gild rök fyrir því að stuðla að sameiningu sveitarfélaga og/eða tryggja aukna samvinnu þeirra. En sameining verður að vera á forsendum íbúanna sjálfra. Tilraunir til lögþvingunar hafa ekki gengið eftir og þá virðist eiga að beita fjárhagslegum þumalskrúfum til að ná fram pólitískum markmiðum um fækkun sveitarfélaga. Valdboð og þvinganir í stað jákvæðra hvata. Tilskipanir í stað valfrelsis íbúanna.