Óli Björn Kárason, sem eflaust er stefnufastasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist nú eftir öðru sæti á lista síns flokks í Kraganum. Sé flokksfólki þar annt um stjórnmálin mun Óli Björn fá góða kosningu. Ekki er víst að hugsjónir Óla Björns dugi til. Framundan er mikil barátta. Bjarni Benediktsson að sjálfsögðu viss um fyrsta sætið.
Aðrir frambjóðendur eru: Arnar Þór Jónsson dómari og þingmennirnir Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason og svo Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður sem Bjarni færði úr öruggu þingsæti og gerði af varaþingmanni. Þetta hefur Vilhjálmur aldrei fyrirgefið.
Óli Björn skrifar í Moggann í dag um eigið framboð. Þar segir hann:
„Í starfi mínu á þingi hef ég byggt á pólitískri sannfæringu – hugmyndafræði og lífssýn sjálfstæðisstefnunnar um mannhelgi einstaklingsins og þeirri vissu að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Á stundum hefur reynt á þolrifin en ekki síður þolinmæðina. Oft hefur gefið á bátinn en svo hafa mikilvægir áfangasigrar unnist, sem hafa tryggt betri lífskjör almennings. Og tilveran hefur orðið skemmtilegri og litbrigði mannlífsins fjölbreyttari.
Það er ekki sjálfgefið að taka ákvörðun um að sækjast eftir endurkjöri sem þingmaður. Ástríðan verður að vera fyrir hendi. Í stjórnmálum verður árangurinn lítill án sannfæringar og löngunar til að berjast fyrir framgangi hugmynda. Ástríðan, sannfæringin og löngunin er enn til staðar – og síst minni en áður. Stefnufesta er nauðsynleg en þolinmæði ekki síður því dropinn holar steininn. Baráttan fyrir frelsi einstaklingsins og fullveldi landsins heldur áfram. Í þeirri baráttu vil ég taka fullan þátt.“