„Höfum við efni á þessu öllu?“ Þessi er fyrirsögnin á óvæginni gagnrýni Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á efnahagsstjórn síðustu ára. Á þeim tíma hefur flokkur Óla Björns, Sjálfstæðisflokkurinn, ráði nær öllu í efnahagsstjórn landsins.
Óli Björn skrifar ádrepuna í Moggann í dag. Þar segir:
„Í raun skiptir engu hvaða tölur um útgjöld hins opinbera eru skoðaðar. Sameiginlegur kostnaður landsmanna hefur hækkað gríðarlega á síðustu áratugum. Aukning útgjalda getur verið nauðsynleg og skynsamleg s.s. í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, þar sem verið er að tryggja aðgengi sjúkratryggðra – okkar allra – að nauðsynlegri þjónustu. En jafnvel innan heilbrigðiskerfisins eru fjármunir ekki nýttir eins og best verður á kosið. Framlög til almannatrygginga hafa stóraukist og hið sama á við um menntakerfið.“ Mikil dauðyfli eru í flokknum verði gagnrýni Óla Björns á verk flokksins ekki rædd innan húss í Valhöll.
Óli Björn er ekki hættur: „Hver og einn verður að svara því hvort þjónusta hins opinbera – ríkis og sveitarfélaga – hafi batnað í samræmi við aukin útgjöld. Velta því fyrir sér hvort við sem velferðarþjóð höfum efni á þessu öllu, eða hvort tækifærin felist ekki síst í bættri nýtingu fjármuna og endurskipulagningu ríkisrekstrar.“
Að lokum þetta: „Áskoranir í rekstri hins opinbera á komandi mánuðum felast ekki í auknum ríkisútgjöldum heldur í betri og hagkvæmari nýtingu sameiginlegra fjármuna. Þetta á jafnt við um ríkið og sveitarfélögin. Hundruð milljarða aukning útgjalda hins opinbera og ríkisins sérstaklega er ekki vísbending um að skortur sé á peningum í fjárkisturnar heldur fremur merki um ómarkvissa nýtingu þeirra.“