„Komið var í veg fyrir lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga,“ skrifar Óli Björn Kárason í Moggann í dag. Þarna fær Sigurður Ingi Framsóknarformaður létt högg frá Óla Birni. Það er ekkert miðað við höggið sem hann veitir umhverfisráðherra Vg:
„Hálendisþjóðgarðurinn varð ekki að veruleika og útilokað var að afgreiða fyrirliggjandi frumvarp með öðrum hætti en vísa því aftur til ríkisstjórnar. (Hvernig staðið var að verki við frumvarpið er ágætt skólabókardæmi um hvernig ekki á að vinna ef ætlunin er að mynda sátt og samstöðu meðal almennings, landeiganda og sveitarfélaga um mikilvægt mál.)“
Það er meira en háð í þessum skrifum Óla Björns. Það er áfellisdómur.
Svo má líka finna í grein Óla Björns kafla þar sem hann lýsir Alþingi sem furðuverki þar sem mál eftir mál sem unnin eru í þinginu séu hreint galin og eigi ekkert erindi í þingið hvað þá að verða afgreidd þaðan:
„Eins og alltaf var handagangur í öskjunni á síðustu vikum og dögum þingsins og kannski meiri en oft áður þar sem kosningar eru skammt undan. Ég ítrekaði oft við félaga mína í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og einnig við nokkra samverkamenn í stjórnarliðinu að sum mál – frumvörp ríkisstjórnar og þingmanna – væru einfaldlega þannig að hvorki himinn né jörð myndi farast þótt þau dagaði uppi og yrðu ekki afgreidd. Raunar væru nokkur sem aldrei mætti samþykkja,“ skrifar Óli Björn.