Óli Björn hnýtir í Kára
Kári Stefánsson gagnrýndi Jón Ívar Einarsson, prófessor í læknisfræði við Harvardháskólann, harkalega vegna skoðana Jóns Viðar á sóttvörnum. Nú hefur Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokki blandað sér í málið. Hann skrifar í Moggann.
„Ábendingum og gagnrýni virts íslensks prófessors við læknadeild Harvard-háskóla var mætt með hroka, yfirlæti og hreinum dónaskap. Spurningar og ólík sjónarmið eru eitur í beinum hinna „réttlátu“ sem hafa höndlað sannleikann í eitt skipti fyrir öll. Þegar allt kapp er lagt á að þagga niður gagnrýni eru spurningar ekki aðeins óþarfar heldur beinlínis hættulegar. Það er ekkert rúm fyrir efasemdir og engin nauðsyn á því að leita nýrra leiða við úrlausn verkefna. Samkeppni hugmynda er ógn en ekki mikilvæg leið til að virkja krafta mannshugans.“
Óli Björn heldur áfram og nú eru það lögmennirnir sem fá sneið frá þingmanninum:
„Alvarlegum efasemdum um hvort stjórnvöld hafi heimild að lögum til að hefta athafnafrelsi og samfélagslegt samneyti til lengri tíma í nafni sóttvarna er mætt með tómlæti af fræðaheimi lögfræðinga. Engu er líkara en þeir sem ættu að leiða gagnrýna umræðu um stjórnskipan landsins og lagalegar forsendur fyrir ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma forðist að taka til máls.
Ég óttast að háskólasamfélagið, sem á að vera griðastaður frjálsrar umræðu og ólíkra skoðana, sé hægt og bítandi að breytast í einskonar kirkjudeild pólitísks rétttrúnaðar. Ekki aðeins hér á landi heldur ekki síður í öðrum lýðræðislöndum. Í bandarískum háskólum eru fræðimenn flæmdir úr starfi og komið er í veg fyrir að gestafyrirlesarar með skoðanir sem ekki eru þóknanlegar geti tekið til máls. Verið er að hneppa háskóla í spennitreyju rétthugsunar. Frjó hugsun og frjáls vísindastarfsemi eru fórnarlömbin. Samfélagið allt ber skaðann.“