Óli Björn Kárason, sem efalítið er helsti hugsjónastjórnmálamaður Sjálfstæðisflokksins, opnar sig í Moggagrein í dag. Hann er ósáttur með stöðu flokksins og segir að þingmenn beri ábyrgð á hvernig komið er fyrir flokknum. Óli undanskilur sig ekki.
Í greininni segir: „Frá nóvember síðastliðnum hefur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn aldrei mælst yfir 20% – eða í átta mánuði samfellt.“
Næst þetta:
„Hafi flokkurinn einhvern tíma þurft á rökræðum og skoðanaskiptum að halda þá er það þegar á móti blæs. Markmiðið er, eins og ætíð, að ydda og marka pólitíska hægri stefnu, breyta vinnubrögðum og herða málflutninginn með sjálfstrausti þess sem hefur fjölda samherja sér að baki. En um leið læra af mistökum liðinna ára.“
Bjarni formaður hlýtur að lesa þetta. Hvað þá þetta:
„Hafi valið að setja hugsjónir út í horn í málamiðlun og huggulegum samræðum um tæknilegar útfærslur við pólitíska andstæðinga sem eru tímabundið samverkamenn í ríkisstjórn.“
Þarna er fast skotið á Bjarna og samstarf hans við Katrínu Jakobsdóttur.
Ekki má sleppa þessari sjálfsgagnrýni:
„En um leið verðum við, hvert og eitt okkar, að hafa burði til að svara og taka afstöðu, en feykjast ekki líkt og lauf í vindi til að geðjast þeim sem rætt er við hverju sinni.“
Niðurlag greinar Óla Björns Kárasonar er svona:
„Undir lok ágúst kemur flokksráð Sjálfstæðisflokksins saman. Þar getum við sjálfstæðismenn sett hugsjónir í forgang. Grunnstefið er sjálfstæði landsins og frelsi einstaklinganna. Flokksráðsfundurinn getur markað nýtt upphaf í baráttunni fyrir opnu samfélagi þar sem sköpunargáfa og athafnaþrá hvers og eins fær að njóta sín. Með skýrum skilaboðum um að skorin verði upp herör gegn tæknilegum kratisma þar sem brautin fyrir sjálfstæða atvinnurekandann verður rudd endurnýjast trúnaðarsamband sem hefur trosnað upp.
Hreinskiptnar umræður á flokksráðsfundi geta markað upphaf að nýrri sókn Sjálfstæðisflokksins þar sem áherslan er á hag millistéttarinnar og atvinnulífsins. Fyrirheitin eru skýr: Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja grunninn að fjárhagslegu sjálfstæði allra. Enginn stjórnmálaflokkur skilur betur samhengið milli fjárhagslegs sjálfstæðis, jafnréttis, lágra skatta, atvinnufrelsis og velsældar.
Tækifærin eru fyrir hendi fyrir okkur sjálfstæðismenn og það er okkar að grípa þau eða glata.“