Óli Björn Kárason skrifar langa grein í Moggann, í dag sem og aðra miðvikudaga. Nú skrifar hann um hversu gott land Ísland er og hversu gott þjóðin hefur það. Hann fetar hinn þrönga stíg sem Logi Bergmann lagði í sama blaði á sunnudaginn.
Óli Björn þylur upp umsagnir héðan og þaðan sem eiga að sýna og sanna að hér drjúpi smjör af hverju strái og allir hafi það gott og hafi aldrei haft það betra. Nokkuð drjúgur hluti þjóðarinnar lifir í þeim allsnægtum sem Óli Björn telur sig sýna fram á. Þar lifa bæði Óli Björn og Logi Bergmann.
Eftir að hafa talið upp skýrslur héðan og þaðan um meint ágæti afkomu Íslendinga skrifar þingmaðurinn:
„Þegar allt þetta er haft í huga er það umhugsunarvert af hverju reynt er að draga aðeins upp dökka mynd af landi og þjóð. Það er engu líkara en ákveðin öfl nærist á að dvelja við hið neikvæða.“
Hér á þingmaðurinn hugsanlega við Eflingu sem berst fyrir bættum kjörum láglaunakvenna. Kannski á hann við Öryrkjabandalagið sem er óþreytandi að benda á ömurlega stöðu sinna félagsmanna. Svona má því miður lengi telja.
Höldum áfram að rýna í Óla Björn:
„Fá tækifæri eru látin ónotuð til að tala Ísland niður. Allt er gert til að byggja undir þá tilfinningu að Ísland sé spillt land.“
Það er hreint ótrúlegt að það þurfi að benda þingmanninum á, að einmitt í dag, fjallar Mannréttindadómstóll Evrópu, um hreint magnaða spillingu Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans.
Engum er alls varnað. Það er eins og Óli Björn hafi fengið nóg af sjálfum sér. Lok greinar hans lýsa raunveruleikanum. Óla Birni hefur kannski svelgst á þegar renndi augum yfir það sem hann hafði áður skrifað:
„En þótt margt hafi tekist vel og staðan almennt góð, er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að gera betur á ýmsum sviðum. Við eigum ýmis verk óunninn þegar kemur að almannatryggingum, skipulagi heilbrigðiskerfisins og ekki síður menntakerfisins. Við þurfum að gera meiri kröfur til þess að sameiginlegir fjármunir okkar nýtist en sé ekki sólundað. Og okkar bíða risaverkefni á sviði innviðafjárfestinga og til þess erum við vel í stakk búin. Tækifæri eru fyrir hendi.“
Óli Björn, sem er hæfastur þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þarf að lenda sína bleika draumaskýi og taka til hendinni. Verkefnalistann skrifaði hann sjálfur í lok greinarinnar.
-sme