„Menntamálaráðherra hefur kynnt stjórnarflokkunum frumvarp um stuðning við sjálfstæða fjölmiðla. Efnisatriði þess koma fram þegar ráðherra mælir fyrir frumvarpinu. Þegar og ef frumvarpið kemur til efnislegrar meðferðar á Alþingi, verður ekki hjá því komist að skoða stöðu Ríkisútvarpsins,“ skrifar hann í Moggagrein í dag.
Þarma má lesa efa um ágæti frumvarpsins, sem enn er leynd yfir og beðið eftir viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins. Viðbrögð Óla Björns gefa Lilju ekki góðar vonir um framgang frumvarpsins.
Óla Birni er yfirburðastaða Ríkisútvarpsins, meðal fjölmiðla, hugleikinn.
„Kannski er von til þess að hægt sé að setja einhver bönd á samkeppnisrekstur ríkisins og draga þannig úr þörfinni fyrir sértækar aðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir að sjálfstæð fjölmiðlun á Íslandi komist í þrot. Af þeirri ástæðu einni getur verið skynsamlegt að lofa þinginu að fást við verkefni sem menntamálaráðherra hefur mótað í formi frumvarps.“
Hann er ekki bjartsýnn: „Það eru litlar eða engar líkur á því að leikreglunum verði breytt á komandi árum. Öllum má vera það ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þingmanna stendur dyggilega vörð um Ríkisútvarpið. Þess vegna, og eins vegna þess hve mikilvægir frjálsir fjölmiðlar eru, hef ég talið koma til greina að styrkja sjálfstæða fjölmiðlun með öðrum hætti – gera tilraun til að gera leikinn örlítið jafnari. Skilvirkasta leiðin til að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla er lækkun skatta og opinberra gjalda. Innleiða samræmdar og gagnsæjar skattaívilnanir fyrir einkarekna fjölmiðla. Hugmyndin er langt í frá gallalaus en er lítið annað en nauðvörn – viðleitni til að rétta hlut einkarekinna fjölmiðla í ósanngjarnri samkeppni við ríkisfyrirtæki.“