Einsog áður hefur komið fram hér andar nú köldu frá Hádegismóum til ríkisstjórnarinnar. Mestu munar um að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að koma í gegn lækkun veiðigjalda. „Hvernig má það vera að ríkisstjórn, sem samkvæmt hefðbundinni talningu hefur traustan meirihluta að baki, kemur ekki í gegn máli á borð við lagfæringu veiðigjalda?“ Segir í lok leiðara dagsins í Mogganum.
Þó ritstjórinn í Hádegismóum hafi orðið fyrir sárum vonbrigðum með frammistöðu ríkisstjórnarinnar, með sinn trausta meirihluta, er þó ekki algjört svartnætti í huga ritstjórans. Hann sér hið minnsta eitt ljós.
Ekki allir laustengdir veruleikanum
„Sem betur fer,“ skrifar hann, „…eru ekki allir þingmenn svo laustengdir veruleikanum. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur lýst miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin og vill að
lækkun veiðigjalda, þannig að þau taki mið af afkomu greinarinnar, verði forgangsmál þegar þing kemur saman í haust. „Það að hafa ekki náð fram þessum breytingum núna er alvarlegt. Ég vona að það hafi sem minnst áhrif, en ég óttast að þetta hafi afleiðingar í för með sér sem menn verða þá að horfast í augu við því þingið hafði ekki burði til þess að taka málið til efnislegrar meðferðar eins og lagt var upp með hér í síðustu viku. Það var komið í veg fyrir það,“ sagði Óli Björn í samtali við Morgunblaðið.“
Alvarleg staða Alþingis
„Það er fjarri því ofmælt,“ skrifar ritstjórinn, „…að það sé alvarlegt að þingið hafi ekki burði til að taka mál af þessu tagi til efnislegrar meðferðar. Fleiri mál hljóta að þurfa að vera á forgangslista ríkisstjórnarinnar en þau sem koma frá Brussel. Fyrir liggur að sjávarútvegurinn, grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar, er svo skattpíndur að fjöldi fyrirtækja um allt land á í erfiðleikum. Hvernig má það vera að ríkisstjórn, sem samkvæmt hefðbundinni talningu hefur traustan meirihluta að baki, kemur ekki í gegn máli á borð við lagfæringu veiðigjalda?“