Ole Anton Bieltvedt:
„Svo, hver skyldi nú hafa á réttu að standa, Bjarni Benediktsson, eða ráðamenn, vísinda- og fræðimenn, efnahagssérfræðingar og hagfræðingar allra þessara þjóða!?“
„Undirrituðum verður hugsað til kenninga og stefnumála Bjarna Benediktssonar í hagfræði, eða, nánar til tekið, á sviði atvinnumála, gjaldmiðlamála og krónumála, þar sem hann hefur komið fram með kenningar, sem eru ekki aðeins óvenjulegar, heldur með öllu einstakar,“ skrifar Ole Anton Bieltvedt í hreint ágætri grein í Fréttablaði dagsins.
„Mér er ekki kunnugt um, að neinn annar fjármálaráðherra, hagfræðingur eða peningastefnu-vísindamaður, neins staðar í Evrópu – og er þá vitnað til helztu framámanna á sviði hagfræði, gjaldmiðlamála og efnahagsvísinda í 30 öðrum löndum – hafi uppi sömu kenningar og efnahagsstefnumál og Bjarni Ben.
Svo, ef Bjarni skyldi nú hafa rétt fyrir sér, og allir hinir rangt, þá væri Bjarni auðvitað merkilegt séní og maklegt, að Bjarni fengi ekki aðeins tilnefningu, heldur Nóbelsverðlaunin sjálf.
En hverjar eru svo þessar sérstöku kenningar og meintar efnahagslausnir Bjarna?
Verður hér vitnað í umræðuþátt Páls Magnússonar á Hringbraut miðvikudaginn 18. ágúst og ummæli og fullyrðingar Bjarna þar:
„Annað hvort verði atvinnustigið að flökta eða virði gjaldmiðilsins“, fullyrti Bjarni. M.ö.o., ef gjaldmiðillinn getur ekki flökt og sveiflast, að vild stjórnvalda, yrði atvinnustigið ótryggt.
En, hvernig horfir þetta nú við, svona praktískt séð?
Helztu hagfræðingar og vísindamenn á sviði peninga- og gjaldmiðlamála, gengisstefnufræða, ráðherrar og ríkisstjórnir líka, í 30 Evrópulöndum, hafa talið þeirra efnahag, fjárhagslegum stöðugleika, framförum í lífskjörum og velsæld, og einmitt og sérstaklega traustu og stöðugu atvinnustigi, bezt borgið með evru, sem gjaldmiðli, eða með tengingu síns gjaldmiðils við evru, vegna tryggrar stöðu hennar og þess fyrirsjáanleika, sem hún veitir. Þar á meðal eru mörg lítil lönd, með sveiflukenndan efnahagsgrundvöll, eins og við, t.a.m. Malta og Kýpur, en báðar þessar þjóðir byggja sína afkomu einmitt mest á ferðaþjónustu og sjávarútvegi, eins og við. Færeyjar eru líka í þessum hópi, en hjá þeim og okkur er margt líkt, eins og menn þekkja.
Færeyingar tengja sína færeysku krónu við dönsku krónuna, sem aftur er tengd við evruna. Þannig fá Færeyingar styrk og stöðugleika evrunnar, þó að nafn gjaldmiðilsins sé annað, til að tryggja m.a. eða sérstaklega stöðugt og hátt atvinnustig hjá sér.“
Síðar í greininni segir: „Svo, hver skyldi nú hafa á réttu að standa, Bjarni Benediktsson, eða ráðamenn, vísinda- og fræðimenn, efnahagssérfræðingar og hagfræðingar allra þessara þjóða!?“