Fréttir

Ólafur segir Valhöll skjálfa: „Flokksmenn sakna Eyþórs Arnalds“

By Ritstjórn

May 04, 2022

Hagfræðingur Ólafur Arnarsson segir Valhöll skjálfa og sjálfstæðismenn í sárum eftir hræðilega útkomu flokksins í s´íðustu þremur skoðanakönnunum fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Flokkurinn mælist nú í sögulegu lágmarki.

Ólafur ritar um þetta pistil sem birtist á Hringbraut. Þar segir hagfræðingurinn:

„Áður hefur gerst að flokkurinn hafi litið illa út í skoðanakönnunum tíu dögum fyrir kosningar en náð að rétta hlut sinn nokkuð fram að kosningum. En sennilega hefur staðan aldrei verið eins dökk og núna. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

  1. Málefnastaða flokksins í borginni er afleit. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið uppi niðurrifsáróðri allt kjörtímabilið og málflutningur hans nær einfaldlega ekki til fólks.
  2. Framboðslistinn í Reykjavík er veikur. Hildur Björnsdóttir leiðtogi listans virðist koma ein fram í fjölmiðlum vegna þess að öðrum á listanum er ekki treyst, enda er vitað að frambjóðendur í efstu sætum tala ekki einum rómi í stærstu málum.
  3. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er þverklofinn í fylkingar Guðlaugs Þórs og Áslaugar Örnu. Vegna klofnings er flokkurinn ekki stjórntækur.
  4. Kjósendur hljóta að spyrja hvort þeir hafi ávinning af því að hafna núverandi samstiga meirihluta fyrir klofinn Sjálfstæðisflokk sem fæstum hugnast að vinna með, nema þá ef til vill Framsókn sem teflir fram sjálfstæðismanni úr Kópavogi sem sínum oddvita.
  5. Óslitin röð vandræða- og hneykslismála sem tengjast formanni flokksins er farin að síga verulega í. Klúðrið með Íslandsbankaútboðið kann að vera kornið sem fyllir þann mæli.

Ekki má hins vegar gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn er alvanur að takast á við óhagstæðar spár á lokaspretti kosningabaráttu. Hvað er líklegt að gerist síðustu tíu dagana fyrir kosningar nú?

  1. Sjálfstæðisflokkurinn mun ausa fé í kosningabaráttuna af meiri örvæntingu en áður hefur sést. Að vísu eru sum slagorðin barnaleg og bera vott um örvæntingu. Eins og: SUNDABRAUT STRAX! Vilja ekki allir Sundabraut? Það er ríkissjóður sem borgar og hefur verið að velkjast með þetta mál í aldarþriðjung. Getur það verið kosningamál í borginni núna? Já, og strax? Þó að allt gengi að bestu óskum, tæki hönnun, undirbúningur og framkvæmd áratug. Strax getur verið afstætt hugtak í pólitík.
  2. Skrímsladeild flokksins hefur ávallt látið til sín taka rétt fyrir kosningar. Hverju má búast við nú? Á sínum tíma dreifði sú deild falsáróðri um núverandi forsætisráðherra – sem flokkurinn settist svo í vinstri stjórn hjá sem meðstjórnendur strax eftir kosningar. En í kosningabaráttunni var hún skatta-Kata. Skrímsladeildin er hluti af stjórnkerfi flokksins og dregur yfirleitt ekki af sér. Áhugavert verður að fylgjast með hvað fulltrúar hennar gera nú. Skrímsladeildin á sína fulltrúa á framboðslistanum í Reykjavík, í Háskóla Íslands og á ritstjórn Morgunblaðsins.
  3. Þegar illa hefur gengið í könnunum rétt fyrir kosningar hefur flokkurinn gjarnan smalað saman miklum fjölda fólks til að hringja út og hvetja kjósendur til liðveislu. Núna er stemmningin svo dauf, áhuginn svo takmarkaður og málstaðurinn svo slakur að talið er að illa muni ganga að fá fólk til að tala máli Sjálfstæðisflokksins þessa fáu daga sem eftir lifa til kosninga.
  4. Oft hefur það verið þrautarráð Sjálfstæðisflokksins að vara við vinstri stjórn þegar málefnafátækt hefur hrjáð. Verði það reynt núna yrði það býsna hjáróma hjá flokki og flokksmönnum sem eru burðarásar í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, sem hét Alþýðubandalagið áður en skipt var um kennitölu. Núverandi meirihluti í borginni er mjðjustjórn en ríkisstjórnin er vinstri stjórn. Nokkuð sem kjósendur mættu hafa í huga!

Niðurstaða:

Í borgarstjórnarkosningunum mun Sjálfstæðisflokkurinn eitthvað laga stöðu sína frá könnunum en gjalda engu að síður afhroð og fá lökustu útkomu sína í Reykjavík frá upphafi.

Flokksmenn munu sakna Eyþórs Arnalds, sem kennt var um lélega stöðu flokksins en náði þó 30 prósenta fylgi fyrir fjórum árum.

Hildur Björnsdótir verður enn einn einnota leiðtogi flokksins í Reykjavík í meira en aldarþriðjung.

Leitin að næsta einnota ofurhuga hefst innan skamms. Sagan heldur áfram að endurtaka sig.“