- Advertisement -

Ólafur Ragnar skuggastjórnandi Samfylkingarinnar?

Hún ætli sér að verða forsætisráðherra hreinnar vinstri stjórnar strax eftir næstu kosningar sem verða í síðasta lagi árið 2025.

Ólafur Arnarson skrifar um Kristrúnu Frostadóttur og Ólaf Ragnar Grímsson á vef Hringbrautar. Ólafur hefur heimildir fyrir því að forsetinn fyrrverandi sé pólitískur áðgjafi Kristrúnar.

„Eftir því hefur verið tekið að undanförnu að Kristrún Frostadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti lýðveldisins, hafa verið að stinga saman nefjum. Sumir vilja jafnvel meina að Ólafur sé nánasti ráðgjafi Kristrúnar,“ segir í grein Ólafs Arnarsonar.

Lesum áfram:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Einhverjir telja Kristrúnu vinna eftir skýrri og metnaðarfullri áætlun sem hún hafi mótað undir leiðsögn Ólafs Ragnars Grímssonar. Hún ætli sér að verða forsætisráðherra hreinnar vinstri stjórnar strax eftir næstu kosningar sem verða í síðasta lagi árið 2025. Þessu til stuðnings er sagt að engar tilviljanir ráði því hvernig hún hefur kynnt áherslur sínar og Samfylkingarinnar eftir að hún tók við formannsembættinu.

Kristrún hefur lýst vilja til að stórhækka skatta á hina efnameiri og tekjuhærri í þjóðfélaginu. „Þeir sem eru aflögufærir“ eigi að borga mun meira en verið hefur. Jafnframt hyggist hún hækka fjármagnstekjuskatt verulega og vilji endurvekja auðlegðarskatt. Kristrún hefur talað um svonefndan „hvalrekaskatt“, auk þess sem hún boðar hátekjuskatt á fólk með launatekjur yfir tilteknum mörkum – sem hún hefur reyndar ekki ennþá upplýst hver eru. Hvar skyldu þau mörk liggja? Verður miðað við 1,5 milljónir króna í launatekjur á mánuði eins og venjulegir þingmenn hafa, eða tvær milljónir eins og þingmenn í stjórnarandstöðu, sem jafnframt eru formenn flokka, bera úr býtum, eða þá 2,5 milljónir eins og forsætisráðherra er með í mánaðarlaun. Hvar skyldu ofurlaunin byrja?“

Best að birta hér það sem eftir er af greininni á Hringbraut. Opið kommentakerfi er með greininni.

„Samkvæmt skoðanakönnunum fellur kjósendum þetta tal vel, enda ávallt til vinsælda fallið að hvetja til skattahækkanna á aðra. Þessi málflutningur nær eyrum Vinstri grænna sem hafa ekki fengið að hækka skatta mikið í núverandi ríkisstjórn og ljóst er að fylgisaukning Samfylkingarinnar eftir að Kristrún tók við formennsku stafar að hluta til af því að fyrrum kjósendur Vinstri grænna telja sig hafa fundið í Kristrúnu það sem þeir finna ekki innan Vinstri grænna. Svona tal Kristrúnar mun höfða beint til Vinstri grænna við stjórnarmyndun, einnig Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands, komi hann fólki á þing. Þá þarf ekki að búast við andstöðu við þessa hugsun frá Pírötum.

Kristrún hefur sett umræðu um Evrópusambandið, evru og áhyggjur af dvergmyntinni, íslensku krónunni, aftar í röðina. Alla vega í bili. Það auðveldar henni að ná samkomulagi við sósíalistaflokkana, Vinstri græna og Flokk fólksins. Hún varast að nefna utanríkismál, en Vinstri grænir hafa úrsögn úr NATO á stefnuskrá sinni þótt Katrín Jakobsdóttir mæti skælbrosandi á alla NATO-fundi og uni sér þar vel innan um stríðsherrana.

Fram að þessu hefur Kristrún Frostadóttir lagt höfuðáherslu á fáa málaflokka í stefnumörkun sinni. Hún talar um heilbrigðiskerfið, sem reyndar allir eru sammála um að þurfi að stórefla, vill gera átak í húsnæðismálum yngra fólks og þeirra sem verr eru settir, hún nefnir loftslagsmálin, náttúruvernd og hvernig eigi að taka á móti útlendingum. Um þetta er alger samstaða milli Samfylkingar og hinna vinstri flokkanna.

Kristrún Frostadóttir er hagfræðingur og þó að hún hafi ekki vikið mörgum orðum að þeim gríðarlega vanda sem steðjar að þjóðinni vegna stöðugs fjárlagahalla, sem ekki sér fyrir endann á, hlýtur hún að gera sér vein fyrir vandanum og eðli hans. Engar raunhæfar leiðir hefur hún bent á til að hamla gegn óðaverðbólgunni og sívaxandi okurvöxtum. Henni er viss vorkunn. Úrræðin sem grípa þarf til ríma ekki vel við þau skilaboð sem hún er að senda kjósendum á vinstri kantinum. Staða þessara mála er hins vegar svo alvarleg að ekki verður haldið áfram á sömu braut stjórn- og ráðaleysis og verið hefur hin síðari ár. Ekki mun ástandið batna komist rándýr vinstri-kosningaloforð Kristrúnar til framkvæmda.

Kristrún hefur átt nokkra fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, sem býr yfir þeirri reynslu að vera eini maðurinn í Íslandssögunni sem myndað hefur hreina vinstri stjórn. það gerði hann snemma árs 2009 þegar hann vafði þá ungum og óreyndum formanni Framsóknarflokksins um fingur sér og vélaði hann til að veita minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur brautargengi fram til kosninga síðar um vorið.

Ýmsir telja Kristrúnu ætla að sýna þjóðinni að hún geti myndað hreina vinstri stjórn. Þar sé hún undir áhrifavaldi Ólafs Ragnars.

Í þremur Gallup-könnunum í röð hefur Samfylkingin mælst með meiri stuðning en Sjálfstæðisflokkurinn, síðast nú í byrjun þessa mánaðar með 24 prósent. Gallup reiknaði þá út að Samfylking fengi 17 þingmenn kjörna, Píratar 8 menn, Vinstri grænir 4 þingmenn og Flokkur fólksins 3. Samtals 32 þingmenn sem gætu myndað meirihluta á Alþingi. Þá var gert ráð fyrir að Sósíalistaflokkurinn næði einum manni inn sem gæti lagt þessari vinstri stjórn lið ef á þyrfti að halda.

Þeir sem eru eldri en tvævetur í pólitík hafa áhyggjur af því að Kristrún kunni að misstíga sig illa með samkrulli sínu við fyrrverandi forseta. Ólafur Ragnar er aldrei áhorfandi. Hann er ávallt gerandi og á taflborði stjórnmálanna hefur hann oft skýrari sýn en aðrir. Hann leikur líka ávallt þá leiki sem þjóna best hans eigin hagsmunum. Alls óvíst er að hagsmunir Ólafs Ragnars fari saman við hagsmuni Kristrúnar og Samfylkingarinnar, nú eða þá þjóðarinnar.

Kristrún Frostadóttir er framtíðin í íslenskum stjórnmálum. Tími Ólafs Ragnars er liðinn og kemur ekki aftur. Tími Kristrúnar er kominn og hún verður að gæta þess að horfa til framtíðar en ekki fortíðar. Skynsamlegt getur verið að gæta sín á gömlum refum og þeirra ráðum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: