- Advertisement -

Ólafur Ragnar lítt hrifin af nýju stjórnarskránni

„Að halda að það sé hrist fram úr erminni og halda að það verði í lagi gengur gegn allri stjórnskipulegri reynslu. Það hefur ekkert orðið úr þessu verki því miður.“

Ólafur Ragnar Grímsson.

Ólafur Ragnar Grímsson var gestur minn í þættinum Synir Egils á Samstöðinni á sunnudaginn. Tilefni var bók Ólafs Ragnars, Fólkið og valdið. Ég rifjaði upp samtal sem ég átti við dr. Sigurð heitinn Líndal, lagaprófessor. Ég heimsótti Sigurð og var það skemmtileg heimsókn. Sigurður var hinn vænsti maður. Hann svaraði öllu sem ég beindi að honum. Þá var ég umsjónarmaður Sprengisands á Bylgjunni.

Muni ég þetta réttt var vinna við gerð nýju stjórnarskrárinnar nýhafin. Ég spurði eitthvað um það. Sigurður sagðist ekki treysta sér til að skrifa nýja stjórnarskrá. Sagði það vera mikla vinnu og erfiða. Ég spilaði viðtalið í næsta þætti.

Þegar ég sagði Ólafi Ragnari frá þessu, það er viðtalinu við Sigurð Líndal og heimsókn mína til hans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„…menn gera sér ekki grein fyrir því hvað það er mikið vandaverk að búa til nýja stjórnarskrá.“

Ég spurði Ólaf Ragnar hvort ég mætti spyrja hann um nýju stjórnarskrána.

„Já, já. Það kemur nú reyndar fram í bókinni að mér fannst það ferli ekki traustvekjandi. Ég rökstyð það hvað eftir annað í bókinni og lýsi samtölum við menn þar um. Ég er alveg sammála Sigurði um þetta, sem gamall prófessor í stjórnmálafræði eins og hann var gamall prófessor í lögfræði, að menn gera sér ekki grein fyrir því hvað það er mikið vandaverk að búa til nýja stjórnarskrá.“

Jakob Bjarnar á Vísi hlustaði á viðtal okkar Ólafs Ragnars. Hann skrifar. „Ólafur Ragnar hefur sjaldan eða aldrei verið eins afdráttarlaus í tali um hina nýju stjórnarskrá sem stöðugt skýtur upp kollinum í umræðunni. Hann bendir á að aldrei hafi verið ritað neitt yfirlit yfir það sem þarna gerðist í raun og veru, hjá stjórnlagaráðinu eða stjórnarþinginu.“

Ólafur Ragnar sagði: „En eftir því sem ég hef heyrt, ég veit ekki hvort það er rétt, skiptu þau þessu á milli sín í þrennt, svo komu tillögur um það og svo var tíminn búinn. Þá var alveg eftir sú vinna að stilla þessu gangverki saman, hvernig þessi hjól pössuðu í eina vél. Sú vinna var aldrei unnin.“


Seinna sagði forseti fyrrverandi: „Þannig að það er alveg rétt hjá mínum góða vini Sigurði Líndal heitnum, það að búa til nýja stjórnarskrá er intelektúelt, hvað þá pólitískt, gríðarlegt vandaverk. Að halda að það sé hrist fram úr erminni og halda að það verði í lagi gengur gegn allri stjórnskipulegri reynslu. Það hefur ekkert orðið úr þessu verki því miður.“

Hér er hægt að horfa á viðtal mitt við Ólaf Ragnar Grímsson.

Hér er frétt Jakobs Bjarnars.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: