Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, er látinn, 93 ára að aldri.
Ólafur var skipaður landlæknir árið 1972 og gegndi hann því starfi allt til ársins 1998 að hann lét af störfum.
Ólafur fæddist í Brautarholti á Kjalarnesi þann 11. nóvember 1928 og lauk hann stúdentsprófi frá MR árið 1948 og kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1957. Hann stundaði framhaldsnám í læknisfræði í Svíþjóð, Danmörku og Englandi og var sérfræðingur í lyflækningum, hjartasjúkdómum, farsóttum og í embættislækningum.
Í embætti Landlæknis varð Ólafur þjóðkunnur og vakti oft athygli fyrir óvenjulegar embættisfærslur. Hann var óhræddur við að viðra skoðanir sínar á heilbrigðismálumen og var Ólafur knúinn áfram af ríkri réttlætiskennd.
Ólafur var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1998. Þá varð hann heiðursdoktor við læknadeild HÍ 1998 og heiðursfélagi í Læknafélagi Íslands árið 1998.