„Það segir manni bara það að það hlýtur að vera mikil hætta á eldgosi í kringum Grindavík, í Svartsengi og í Eldvörpum við núverandi aðstæður,“ segir jarðeðlisfræðingur Ólafur G. Flóvens, fyrrum forstjóri Íslenskra orkurannsóknar, um það sem hann telur vera mikil hættumerki um yfirvofandi eldgos.
Ólafur ræddi málið við MBL. „Mér finnst ekki ólíklegt að það sé kvika að safnast saman undir Svartsengi, eða þess vegna undir Sundhnjúkagígaröðinni sem liggur til norðausturs frá Grindavík þar sem að það eru búnir að vera viðvarandi skjálftar í langan tíma,“ segir Ólafur og bætir því við að hefjist eldgos við Svartsengi yrðu Bláa lónið og orkuverið í Svartsengi í mikilli hættu vegna hraunrennslis. Mestar áhyggjur hafi hann þó af Grindavík.