Okurfréttir úr Reykjavík
Marteinn G. Karlsson lúðusúpuunnandi skrifar Velvakanda Moggans og bendir á ótrúlega álgagningu hér og þar. Yfir til Marteins:
„Ég keypti þverskorna lúðu í fiskbúðinni Hafinu í Spönginni á 3.790 krónur kílóið. Á sama tíma sá ég í sjónvarpinu í fiskborði hjá Fiskikónginum þverskorna lúðu á 4.300 krónur kílóið. Fyrsta febrúar var verð á fiskmarkaði á slægðri lúðu 459 krónur kílóið, og áttunda febrúar 689 krónur kílóið. Engin rýrnun nema sporðblaðka og beinin í hausnum. Útsöluverð er því sex- til áttfalt innkaupsverð!
Sigin grásleppa kostaði í fyrra hjá Fiskikónginum 4.000 krónur kílóið, frítt hráefni, annars kastað í sjóinn. Á sama tíma kostaði lambafilet 4.000 krónur kílóið, beinlaus biti. Lítill matur í grásleppunni. Svo eru fisksalar að kvarta yfir minnkandi sölu á fiski! Launalágt fólk hefur ekki efni á að kaupa fisk á svona okurverði.“