- Advertisement -

Okkur var refsað

- en við skildum ekki hvað við höfðum gert rangt.

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: „Það er margt fólk sem hefur það miklu verra en ég. Ég hefði í raun ekki undan neinu að kvarta ef ég byggi í öruggu húsnæði. Þegar ég hugsa um að stelpurnar þurfi að skipta um skóla, enn einu sinni, verð ég veik. Alexandra er í sínum þriðja skóla og hún er bara tíu ára. Emilía er átta ára og þetta er hennar annar skóli. Þær eiga góðar vinkonur í hverfinu og ég græt þegar ég hugsa til þess að þurfa að slíta þær upp úr þessum félagslegu tengslum,“ segir Rósa Jóhannsdóttir, sem leigir íbúð með tveimur dætrum í fjölbýlishúsi í Innri Njarðvík. „Ég sagði við mömmu um daginn að ég myndi frekar flytja út í strætóskýlið hérna en að flytja úr hverfinu. Ég get ekki boðið stelpunum upp á óöryggi, get ekki rifið þær upp með rótum og átt á hættu að þær endi í einhverju rugli. Ég verð veik þegar ég hugsa til þess.“

Rósa er ein af þeim sem fóru illa úr hruninu. Hún átti litla risíbúð þegar hún kynntist barnsföður sínum og þegar Alexandra fæddist ákváðu þau að kaupa íbúðina á neðri hæðinni til að stækka við sig. Fasteignasalinn sagðist geta selt efri íbúðina á viku. Þetta var um mánaðamótin september október 2008. Áður en vikan var liðinn hafði Geir H. Harrde beðið guð að blessa Ísland. Enginn veit hvort guð hlustaði á Geir, en það er ljóst að hann blessaði ekki Rósu Jóhannsdóttur.

Gáfum skít í allt

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrir Hrun hafði hún átt risíbúð, hafði keypt hana á sjö milljónir nokkru fyrr og hún var metin á 12 milljónir þegar Rósa keypti neðri íbúðina. Ungu foreldrarnir höfðu keypt bíl sem hæfði litlu barni. Eftir Hrun sat Rósa uppi með skuldirnar af tveimur íbúðum, sem ómögulegt var að selja, og gengistryggt lán af bílnum. Rósa var í barneignarfríi og maðurinn hennar fékk tilkynningu um að öll yfirvinna yrði skorin niður á hans vinnustað. „Við reyndum að halda í horfinu, en þegar bílalánið fór úr 30 þúsund í 50 þúsund milli mánaða og svo í 100 þúsund næsta mánuð gáfumst við upp. Okkur leið eins og það væru allir að gefa skít í okkur, svo við ákváðum að gefa skít í þetta allt. Við sáum enga leið út. Það var sama hvað við lögðum á okkur, staðan versnaði alltaf miklu meira. Við stigum eitt skref upp en runnum tuttugu skref niður.“

„Það var alveg sama við gerðum, það var engin von. Ástandið bara versnaði og versnaði.“

Þetta var svo klikkað

Þau misstu báðar íbúðirnar á uppboð. Þær fóru á sitthvorar þrjár milljónirnar. Efri íbúðin hafði verið metin á 12 milljónir og þau höfðu keypt þá neðri á 14 milljónir. Þau voru heimilislaus en sátu uppi með skuldir af tveimur íbúðum. Bílinn var líka tekinn. Stuttu eftir að hann var sóttur fengu þau gíróseðil vegna eftirstöðva lánsins: rúmar sex milljónir króna. Þau höfðu keypt hann á þrjár milljónir. „Auðvitað urðum við pirruð, þetta var svo klikkað,“ segir Rósa. „Það var alveg sama við gerðum, það var engin von. Ástandið bara versnaði og versnaði. Við höfðum ekki gert annað af okkur en að kaupa íbúð og bíl og nú leið okkur eins og við hefðum orðið undir valtara. Það var verið að refsa okkur, en við gátum ekki skilið hvað við höfðum eiginlega gert rangt. Við vorum bara ungt fólk með lítið barn.“

Þá gáfumst við upp

Rósa skráði sig í fjarnám og fékk íbúð hjá Keili upp á Velli. „Þetta var á þeim árum þegar Keilir átti íbúðirnar og þær voru á skaplegu verði,“ segir Rósa. „Við leigðum stóra íbúð, 125 fermetra, á 87 þúsund krónur á mánuði, þrjú svefnherbergi, og hiti, rafmagn og internet innifalið. Ári eftir að við fluttum seldi Keilir íbúðirnar og nýju eigendurnir tóku að hækka leiguna. Við minnkuðum þá við okkur, fórum í tveggja svefnherbergja íbúð og borguðum 120 þúsund krónur á mánuði. En þegar þeir vildu hækka hana í 140 þúsund krónur þá gáfumst við upp og fluttum til mömmu meðan við leituðum að íbúð.“

„Ég sagði við mömmu um daginn að ég myndi frekar flytja út í strætóskýlið hérna en að flytja úr hverfinu. Ég get ekki boðið stelpunum upp á óöryggi, get ekki rifið þær upp með rótum og átt á hættu að þær endi í einhverju rugli. Ég verð veik þegar ég hugsa til þess.“

Leigan étur upp kaupmáttaraukninguna

Nú eiga Heimavellir flestar íbúðirnar á gömlu herstöðinni. Rósa segist hafa séð sambærilega íbúð og hún leigði á 87 þúsund krónur auglýsta á 170-180 þúsund á mánuði, verðið fer eftir því hvort íbúðirnar eru á jarðhæð eða ekki. En nú er rafmagn og internet ekki innifalið. Það má því segja að verðið hafi hækkað úr 72 þúsund krónum í 175 þúsund krónur. Á núvirði jafngildir þetta hækkun úr 100 þúsund í 175 þúsund, 75 þúsund króna hækkun umfram verðlag. Til að afla tekna fyrir þeirri hækkun þyrftu leigjendur að hafa fengið meira en 130 þúsund króna launahækkun, á verðlagi dagsins í dag. Það er svona hækkun á leigu sem hefur étið upp alla kaupmáttaraukningu leigjanda. Þótt launin hækka þá hefur fólkið ekki meira til ráðstöfunar þegar búið er að borga leiguna, jafnvel minna.

Get ekkert lagt fyrir

Saga Rósu á leigumarkaði frá því hún missti íbúðina er akkúrat svona. Leigan hefur hækkað jafnt og þétt og étið upp allan ávinning hennar af hærri launum. Hún starfar sem umsjónarmaður í farþegaafgreiðslu Icelandair, grunnlaunin eru undir 300 þúsund krónur á mánuði en hún vinnur vaktir og getur hækkað launin með auknu álagi. Í dag leigir hún íbúð á 175 þúsund krónur á mánuði og telst heppin, leigusalinn kom til móts við hana og lækkaði verðið vegna kunningsskapar. „Þótt ég vinni mikið þá fer vel yfir helmingur þess sem ég fæ útborgað í húsaleigu,“ segir Rósa. „Ég get ekkert lagt fyrir, á ekkert við lok mánaðarins.“

Staða foreldra er erfiðust

Rósa er 35 ára, tilheyrir foreldrakynslóðinni, fólkinu sem elur upp börn framtíðarinnar. Þetta er fólkið sem rekur þyngstu heimilin, skuldar mikið, á lítið og er oft á lægri launum en eldra fólk. Eitt af einkennum samfélaga Vesturlanda á þessari öld er að þessi aldurshópur, unga fólkið og foreldrakynslóðin, býr við lakri efnahagsleg kjör en foreldrar þeirra gerðu þegar þau voru á sama aldri. Margt bendir til að afleiðingar stéttaskiptingar komi fram í meira mæli hjá unga fólkinu, þau sem geta keypt húsnæði séu þau sem fá stuðning frá foreldrum sínum. Er þetta tilfinning Rósu? „Þegar ég horfi yfir krakkana sem voru með mér í bekk þá eru það helst þau sem hafa lokið námi sem hafa náð að kaupa sér íbúð,“ segir Rósa, „og þau sem sem hafa lokið námi eru helst þau sem fengu stuðning frá foreldrunum, gátu búið heima meðan þau voru í skóla. Svo, já, ég held að staða foreldrana erfist. Þau sem koma af betur settum heimilum standa betur. Hin eru fastari í baslinu.“

Eignasala til að borga arð

Rósa er með leigusamning fram í febrúar og leigusalinn segist vilja framlengja hann um sex mánuði eftir það. „Þetta er strákur sem er í flugnámi og hann getur ekki gert löng plön,“ segir Rósa. Hana dreymdi um að leigja íbúð hjá Heimavöllum í Innri Njarðvík, vegna þess að þar hefur verið hægt að fá langtímasamninga. En nú er ekki víst að það sé í boði lengur. Heimavellir eru að selja frá sér eignir til að greiða niður lánin sem fyrirtækið fékk frá Íbúðalánasjóði. Lánunum fylgja kvaðir um óhagnaðardrifinn rekstur. Eigendur Heimavalla eru því að selja frá sér eignir og greiða niður lán svo þeir geti greitt sér arð af mikilli hækkun íbúðaverðs frá Hruni, hagnaði af að hafa meðal annars keypt ódýrt af fólki sem missti íbúðirnar sínar í Hruninu.

„Þegar ég horfi yfir krakkana sem voru með mér í bekk þá eru það helst þau sem hafa lokið námi sem hafa náð að kaupa sér íbúð.“

Að rífa kjaft

Rósa er trúnaðarmaður á sínum vinnustað og býst við harðri kjarabaráttu í vetur. „Ef launin mín hækka ekki verð ég að hætta,“ segir Rósa. „Þetta er skemmtileg vinna, ég hitti allskonar fólk, skemmtilegt og minna skemmtilegt, og mér finnst gaman í vinnunni. Það er líka gaman að vera trúnaðarmaður. Fólkið segir að það sé allt annað að hafa trúnaðarmann sem rífur kjaft. En það er mikið álag í þessari vinnu og ég verð að fá sanngjörn laun fyrir álagið. Ég get ekki lagt mig fram í vinnu undir miklu álagi og lifað áfram í óvissu og án þess að geta veitt mér eða dætrum mínum neitt.“

Vildi verða hamingjusöm

Rósa skildi fyrir ári síðan og finnur vel fyrir því hversu erfitt það er fyrir einstæða foreldra að láta enda ná saman. Það er auðveldara að hafa tvær fyrirvinnur á heimili. En heldur hún að margar konur treysti sér ekki til að skilja vegna þess að þær átta sig á hversu mikið basl það er að vera einstæð móðir? „Já, örugglega mjög margar,“ segir Rósa. „Ég hugsaði þetta vel. Ég vissi að ég var að taka skref sem skaðaði mig fjárhagslega. En ég vildi verða hamingjusöm.”

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: