- Advertisement -

Okkar góði forseti

Þar var áberandi hve skrautlegir margir íslenskir embættismenn voru.

Árni Gunnarsson skrifar:

Mikið var ég ánægður með forseta lýðveldisins, þegar hann lét í ljós skoðun sína um andvaraleysi og þögn þingsins um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni. Einhverjir voru óánægðir með orð hans, en mér fannst hann gera vel. Eins og aðrir Íslendingar getur hann tjáð sig um málefni og hagsmunamál þjóðarinnar.

Enn vil ég þó hvetja hann til að draga úr og helst hætta dreifingu á fálkaorðum. Það ætlaði Ólafur Ragnar að gera, en minna varð úr en ég hafði vonað.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er kannski í lagi, að hengja þetta skraut á erlenda einstaklinga, sem hafa gert þjóðinni greiða.

Orður eiga uppruna sinn meðal evrópska aðalsins, sumra, sem höfðu fátt til brunns að bera og voru stundum að kikna undan orðufjölda á brjósti.

Mér eru minnisstæðar tvær veislur, sem ég sat með Elísabetu Englandsdrottningu, þegar hún kom til Íslands í opinbera heimsókn. Þar var áberandi hve skrautlegir margir íslenskir embættismenn voru. Ég var stoltur af tveimur íslenskum ráðherrum, sem mættu; Jóni Baldvin og Steingrími Hermannssyni, sem aðeins voru prýddir hvítum vasaklútum í brjóstvasa.

Þess má geta, að jafnaðarmönnum er í raun bannað að taka við orðum og er það vel.  Þessi gamli ósiður á ekkert erindi til okkar. Það verður ávallt umdeilt hverjir eru verðugir og hverjir ekki.

Garðar Óskarsson fékk heiðursverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir að hreinsa tyggjó af götum borgarinnar. Fólk af þessu tagi á sannarlega skilið verðlaun fyrir verk sín. Sama gildir um fulltrúa þeirra, stétta, sem halda samfélaginu gangandi með störfum sínum á sjó og landi; fiskverkakonur, sjómenn, björgunarsveitir, heilbrigðisstarfsfólk, tónlistarmenn og aðrir listamenn, sem gleðja og næra menninguna og fólkið, sem sér okkur fyrir rafmagni, vatni, menntun og hverskonar þrifum. Svo er einn og einn einstaklingur, sem stendur uppúr og er óumdeildur og verðugur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: