– Jú hann gerði sjálfur ekki mikið með álit Mannréttindanefndar SÞ á sínum tíma.
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Það kemur kannski ekki svo á óvart að Ögmundur skuli verja það að fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi skipað 4 dómara þvert á niðurstöðu hæfnisnefndar og án rökstuðnings eða rannsóknar sem stjórnsýslulög krefjast. Niðurstaða ráðherra var síðan kreist fram í þinginu og þannig að margir sem tóku þátt í að afgreiða málið sátu eftir með óbragð í munni.
Þeir sem urðu fyrir órökstuddri mismunun fengu síðan bætur og dómskerfið íslenska beið augljóslegan álitshnekki almennings, burt séð frá dómi MDE. Lélegast finnst mér þó hjá Ögmundi að draga inn í umfjöllun málsins lögbrot mannsins sem dæmdur var af ólöglega skipuðum dómi. Er það skoðun Ögmundar að fíkniefnaneytendur eigi ekki rétt á lögmætri og réttlátri málsmeðferð ? Hvers vegna kemur þessi afstaða Ögmundar ekki svo á óvart. – Jú hann gerði sjálfur ekki mikið með álit Mannréttindanefndar SÞ á sínum tíma sem innanríkisráðherra, í máli tveggja sjómanna sem sóttu rétt sinn þangað og snéri beinlínis út úr því áliti. Mögulega er Ögmundur að senda þau skilaboð að rétt sé að gera það sama hvað varðar dóm MDE.