„Og svei þér, Katrín Jakobsdóttir. Þú, sem ég hef alltaf litið á sem talsmann þeirra sem minna mega sín. Nú hafa jötnar snúið forsætisráðherranum í þessu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.“
Þetta segir í góðri grein Unnar H. Jóhannsdóttir sem birt er í Mogganum í dag. Katrín ein á ekki upp á pallborðið hjá Unni.
„Veistu, Bjarni, að svona fréttir eru eins og blaut tuska í andlit öryrkja, sem vonuðust eftir að kjör þeirra yrðu bætt á næsta fjárlagaári og hvað þýða kerfisbreytingar? Ert þú að meina starfsgetumat en þá verðurðu að stofna atvinnumiðlun fyrir 10% öryrkja, 20, 30, 40, 50, 60 og 75%. Geturðu það? Geturðu reddað okkur vinnu? Ég bara spyr eins og fávís kona. Því starfsgetumat er ekki að gagnast nógu vel, þar sem vinnumarkaðurinn kallar á störf í fullt starf og varla hálf – það hefur að minnsta kosti ekki komið vel út í öðrum löndum. Við myndum svo gjarnan vilja gera eitthvað til mótvægis en það er hægara sagt en gert með allar þess skerðingar.“
Hér fer síðasta tilvitnunin í grein Unnar H. Jóhannsdóttur:
„Ég óska ykkur svo sannarlega ekki þess að verða öryrkjar en hins vegar veit ég að það myndi tekjulega ekki skipta neinu fyrir þig, Bjarni, þar sem mér skilst að vasar þínir séu djúpir og þú eigir drjúga sjóði. Hvernig á slík manneskja að geta skilið líf og lífsgæði, eða réttara sagt skert lífsgæði? En Katrínu myndi ef til vill muna um það miðað við þau sem hún hefur í dag en síst myndi ég vilja óska ykkur heilsutaps. En sennilega á hún feitan lífeyrissjóð.“