Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er ósáttur með skrif mín á Miðjunni. „Við eigum ekki að trúa jaðarmönnum,“ segir hann.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, finnur að skrifum mínum í texta sem mér var sendur rétt í þessu.
Ástæða óánægju þingmannsins er sú að Miðjan sagði frá, nú einsog áður, hvaða þingmenn hafa fengið mest greitt fyrir það sem þingið kallar „annan kostnað“. Í apríl var það Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir. Allt frá því að Alþingi tók að birta þessar upplýsingar hefur verið frá þeim greint.
Þingmaður Samfylkingarinnar tók kipp núna og skrifaði:
„Ófyrirleitin pólitísk blaðamennska af jaðri stjórnmálanna er að verða hálfgerð plága því hún ruglar alla umræðu. Við eigum aldrei að trúa jaðarmönnum – þeir eru alltaf að reyna að draga okkur út á sinn jaðar; fá okkur til að finnast það sama og þeim sjálfum finnst. Hér er verið í aðdraganda kosninga að gera fulltrúa samkeppnisflokks tortryggilegan, án þess þó að skrifarinn verði beinlínis hankaður á neinu enda valin efnisatriði af kosgæfni sem henta í áróðrinum. Vissulega varð þessi kostnaður til vegna starfa Þórhildar Sunnu. Sme lætur þess hins vegar ógetið að hér er um að ræða kostnað vegna tveggja ferða á vegum þingsins: fyrst til Asjerbæsjan þar sem hún hafði með höndum kosningaeftirlit og síðan á fund Evrópuþingsins í Strassborg. Þórhildur Sunna „fékk“ því ekki þessa peninga. Raunverulegur fréttamiðill hefði ekki orðað þetta svona – heldur bara jaðarmiðill.“
Svo mörg voru þau orð. Það er reyndar sértakt að þingmaðurinn rugli saman kostnaði vegna starfa þingmanna og svo launum þeirra. Hvergi var fjallað um að Þórhildur Sunna hefði verið að græða eitthvað, bara að kostnaður af hennar starfi var meiri en annarra þingmanna í apríl. Það var nú allt.
Trúlega gætir þarna kosningakvíða hjá þingmanninum. Miðjan sem og aðrir fjölmiðlar hafa sagt frá greiðslunum. Til þessa athugasemdalaust frá þingmanninum. Að vera jaðarmaður með jaðarmiðil að mati Guðmundar Andra er barasta fínt hlutskipti.
Ég kveð þessa umræðu sáttur.
Sigurjón M. Egilsson.